Fótbolti

Robbie Brady skaut Írlandi í 16-liða úrslitin

Antonio Conte og Martin O'Neill, þjálfarar liðanna.
Antonio Conte og Martin O'Neill, þjálfarar liðanna. vísir/epa
Robbie Brady, kantmaður Norwich og írska landsliðsins, var hetja írska landsliðsins, í óvæntum 1-0 sigri á Ítalíu í lokaleik riðlakeppninnar á EM í Frakklandi í kvöld en Brady skoraði sigurmark Írlands með snyrtilegum skalla fimm mínútum fyrir leikslok.

Ítalir tefldu fram breyttu liði eftir að hafa tryggt sæti sitt í 16-liða úrslitunum með sigri á Svíþjóð á dögunum en Ítalir voru sterkari aðilinn framan af þrátt fyrir að allt annað en sigur þýddi að Írar væru úr leik.

Wes Hoolahan virtist hafa klúðrað besta færi Íra í leiknum þegar hann slapp einn í gegn um vörn Ítala en hann en lét Salvatore Sirigu í marki Ítala verja frá sér á 84. mínútu leiksins. Aðeins mínútu síðar tókst Brady hinsvegar að skjótast fram fyrir Sirigu og skalla fyrirgjöf Hoolahan í autt netið.

Írar náðu að halda út síðustu mínútur leiksins og tryggðu sér með því sæti í 16-liða úrslitunum. Það þýðir að öll fjögur liðin frá Bretlandseyjunum verða meðal þátttakenda í 16-liða úrslitunum sem hefjast um helgina en þar mæta Írar gestgjöfunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×