Innlent

Rjúpnaveiðimenn hvattir til að huga vel að undirbúningi

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Getty
Rjúpnaveiðin hefst á föstudaginn og mun það standa yfir í þrjá daga í senn. Frá föstudegi til sunnudags, fjórar helgar í röð. Veiðimenn eru hvattir til að huga vel að undirbúningi en ekki er víst að veðrið verði hliðhollt veiðimönnum.

Það er árviss viðburður að björgunarsveitir aðstoði rjúpnaveiðimenn í vanda en þeim ber skylda til að gera sitt ýtrasta til að fyrirbyggja slíkt.

Á vef VÍS segir að mikilvægt sé að veiðimenn búi sig vel, kynni sér í þaula færð og veður fyrir brottför og taki fullt mark á viðvörunum. Þá þurfi þeir einnig að huga að gasspá og mælingum á loftgæðum. Þeir sem séu viðkvæmir í öndunarfærum þurfi að huga sérstaklega að því.

Þá er veiðimönnum bent á að gera ferðaáætlun og skilja hana eftir hjá vandamönnum eða safetravel.is.

Huga þarf að klæðnaði og skóm, hafa áttavita kort og fjarskiptatæki með í för. Vera á vel útbúnum bíl og ekki vera einir á ferð. Þá má aldrei geyma byssuna hlaðna í bílnum og hafa skal öryggið á á göngu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×