Enski boltinn

Rio talar ekki lengur við John Terry

Ferdinand-bræðurnir.
Ferdinand-bræðurnir.
Það hefur verið kalt á milli Rio Ferdinand og John Terry síðan Terry var sakaður um kynþáttaníð í garð bróður Rios.

Árið 2011 sagði Anton Ferdinand að Terry hefði verið með kynþáttaníð í sinn garð. Málið fór fyrir dóm og var Terry sýknaður þar. Enska knattspyrnusambandið var ekki á sama máli og dæmdi Terry í fjögurra leikja bann. Þá baðst Terry afsökunar á hegðun sinni.

Rio segist ekki enn tala við Terry vegna málsins enda hafi Terry aldrei beðið hann persónulega afsökunar.

„Hann bað hvorki mig né Anton afsökunar. Hann gaf heldur aldrei í skyn að hann skildi hvaða afleiðingar heimskulegt athæfi hans hafði á alla. Við fengum byssukúlur í pósti og endalaus hatursbréf. Hann hefði getað bjargað miklu með því að segjast hafa misst orðin út úr sér í hita leiksins en bæta við að hann væri enginn kynþáttahatari," sagði Rio.

„Við Anton hefðum vel sætt okkur við það enda er það sannleikurinn. Ég hef aldrei rætt þetta mál við John. Ég tala ekki lengur við hann og nú þrem árum síðar er mér fyrirmunað að fyrirgefa honum fyrir þann sársauka sem hann olli fjölskyldu minni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×