Innlent

Ríksstjórnin heldur velli

MYND/GVA

Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna heldur velli samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins.

Samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar Fréttablaðsins, sem gerð var síðastliðinn fimmtudag, fengju stjórnarflokkarnir samtals 48,8 prósent atkvæða og 32 þingmenn, væri gengið til kosninga nú. Ranglega er hermt í Fréttablaðinu í dag að stjórnin haldi ekki velli og biðst blaðið afsökunar á mistökunum.

Aðeins um helmingur þeirra sem þátt tóku í könnuninni tóku afstöðu til einhverra þeirra flokka sem sæti eiga á Alþingi í könnuninni. Það sýnir óánægju með hefðbundna flokka, segir Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðingur. Hann segir merkilegt að stjórnin haldi þó svo miklu fylgi þrátt fyrir augljós vandræði. Það sýni að stjórnarandstaðan eigi ekki heldur upp á pallborðið.

Stuðningur við tvo flokka eykst þó frá því í síðustu könnun Fréttablaðsins, sem gerð var 18. mars síðastliðinn. Hreyfingin mælist nú með stuðning 5,6 prósenta landsmanna, en aðeins 0,3 prósent sögðust styðja flokkinn í mars. Þá hefur stuðningur við Vinstri græn aukist um fimm prósentustig frá því í síðustu könnun og mælist nú 25,6 prósent. Sjálfstæðisflokkurinn mælist sem fyrr stærsti flokkur landsins. Stuðningur við flokkinn minnkar þó um tæp fimm prósentustig milli kannana og er nú 34,6 prósent. Í kosningunum var stuðningurinn 23,7 prósent. Litlar breytingar hafa orðið á stuðningi við Samfylkinguna, 23,2 prósent, svipað og í mars. Það er þó langt undir 29,8 prósenta kjörfylgi flokksins.

Framsóknarflokkurinn tapar talsverðu fylgi. Stuðningur við flokkinn mælist 7,3 prósent, sex prósentustigum minni en í síðustu könnun. Flokkurinn fékk 14,8 prósent í kosningum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×