Enski boltinn

Rikki Daða: Vandræðalega barnalegt hjá Arsenal | Myndband

Manchester United lagði Arsenal, 2-1, í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta um helgina þrátt fyrir yfirburði Lundúnaliðsins.

„Fyrri hálfleikurinn var gjörsamlega í eign Arsenal. Manchester United komst ekki út úr teignum. Það var fyrst og fremst David De Gea sem stóð sig vel og sömuleiðis Chris Smalling sem var með strákana Paddy litla og Tyler Blacket með sér,“ sagði Hjörvar Hafliðason í Messunni á Stöð 2 Sport 2 í gærkvöldi.

„Tyler Blacket á kannski eftir að spila eitthvað í úrvalsdeildinni en ég efast um Paddy McNair. Ég held að þetta verði Championship-leikmenn þegar fram líða stundir. Það var með ólíkindum að United hafi unnið þennan leik.“

Eftir að United komst í 1-0 byrjaði Arsenal að sækja eins og enginn væri morgundagurinn og lagði litla áherslu á varnarleikinn.

„Arsenal fór að sækja eins og það væri ein mínúta eftir, en ekki hálftími. Hvers vegna þeir fóru að taka alla þessa sénsa svona snemma skil ég ekki,“ sagði Hjörvar og Ríkharður Daðason greip inn í.

„Skilurðu ekki? Þú ert búinn að horfa upp á þetta undanfarin ár. Mér finnst þetta alveg með ólíkindum. Ég er alveg sammála þér. Þetta er óskiljanlegt en þetta kom mér ekkert á óvart,“ sagði hann og Hjörvar bætti við:

„Þarna eru tæpar fimmtán mínútur eftir. Þetta var svolítið stupid hjá Arsenal.“

Ríkharður Daðason er alveg búinn að gefast upp á varnarleik Arsenal sem hefur áður verið tekinn fyrir í Messunni.

„Þetta er hætt að vera fyndið. Þetta er vandræðalega barnalegt. Svo segir Wenger eftir leikinn að hann viti ekki af hverju þeir voru ekki með mann á miðlínunni. Hver á að vita það ef stjórinn veit það ekki?“

Alla umræðuna má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×