Innlent

Reyna að klekkja á samkeppnisaðilum og nágrönnum

Höskuldur Kári Schram skrifar
Skattrannsóknarstjóra hafa frá árinu 2011 borist tólf hundruð ábendingar frá almenningi um skattsvik. Dæmi eru um að fólk reyni að misnota þessar ábendingar til að klekkja á samkeppnisaðilum og nágrönnum.

Almenningur getur komið ábendingum um skattsvik á framfæri við skattrannsóknarstjóra meðal annars með því að nota sérstakan ábendingahnapp á vefsíðu embættisins.

Árið 2011 bárust 185 ábendingar en síðan þá hefur þeim fjölgað ár frá ári. Þær voru 223 árið 2012, 283 árið þar á eftir og 331 í fyrra. Á fyrstu níu mánuðum þessa árs höfðu 178 ábendingar um skattsvik borist skattrannsóknarstjóra. Alls eru þetta því tólf hundruð ábendingar frá árinu 2011.

Tíu mál til rannsóknar vegna ábendinga frá almenningi

Margar þessara ábendina eru framsendar til ríkisskattstjóra en í sumum tilvikum telur skattrannsóknarstjóri þörf á sérstakri rannsókn.

„Það eru núna tíu mál í rannsókn sem eiga rót sína að rekja til þess. Fjögur kláruðust á síðasta ári og í tveimur af þeim var undandregin skattstofn á annað hundrað milljónir þannig að það eru dæmi um að þetta skipti máli,“ segir Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri.

Bryndis segir að ábendingarnar séu margvíslegar og af ýmsum toga.

„Í flestum tilvikum eru þetta eðlilegar ábendingar. Í sumum tilvikum er verið að klekkja á til dæmis samkeppnisaðila, fyrrum viðskiptafélaga eða nágranna,“ segir Bryndís.

Þannig að það eru dæmi um að menn séu jafnvel að misnota þetta?

„Já kannski eru menn að reyna en ég held að það sé alveg tryggt að það skili sér ekki með þeim hætti,“ segir Bryndís.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×