Sport

Revis rotaði tvo menn í Pittsburgh

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Revis er í frekar vondum málum.
Revis er í frekar vondum málum. vísir/getty
Einn besti og vinsælasti bakvörðurinn í NFL-deildinni, Darelle Revis, var handtekinn um síðustu helgi í Pittsburgh eftir að hafa lent í átökum við tvo menn.

Revis spilar með NY Jets en er frá bæ rétt utan við Pittsburgh og spilaði með Pitt-háskólanum á sínum tíma.

Hann var í heimsókn hjá fjölskyldu sinni þar og ákvað að nýta tækifærið og bregða undir sig betri fætinum. Það djamm endaði alls ekki vel.

21 árs gamall maður gekkk upp að Revis um miðja nótt og byrjaði að mynda hann með símanum sínum. Revis hélt áfram göngu sinni en maðurinn hélt í humátt eftir honum með símann á lofti.

Það endaði með því að Revis tók af honum símann og reyndi að eyða myndbandinu. Þá reyndi annar ungur maður að aðstoða þann sem vildi fá símann sinn aftur. Þá kastaði Revis símanum í götuna.

Upphófst þá mikið rifrildi sem endaði með því að báðir ungu mennirnir lágu rotaðir í götunni í um tíu mínútur. Þeir segjast ekki hafa rankað við sér fyrr en lögreglan mætti á svæðið.

Búið er að kæra Revis fyrir rán, hryðjuverkahótanir, samsæri og líkamsárás. Það munar ekki um það.

Revis er orðinn 31 árs gamall og hefur fjórum sinnum verið í stjörnuliði NFL-deildarinnar.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×