Lífið

Retro Stefson hættir: „Við erum orðin þreytt“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hin skemmtilega og fjölmenna stuðsveit Retro Stefson er að hætta. Flestir meðlimir sveitarinnar hafa þekkst síðan í leikskóla. Retro Stefson varð til því Unnstein, söngvara sveitarinnar, langaði á Samfés-ball.

„Við erum orðin þreytt,“ segir Logi Pedró Stefánsson.

Retro Stefson varð til því Unnstein, söngvara sveitarinnar, langaði á Samfés-ball. Fjallað var um hljómsveitina og ástæður þess að sveitin hafi ákveðið að hætta í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld og sjá má innslagið í heild sinni hér fyrir ofan.

„Ég var búinn að gera músík á fullu. Setti hana inn á rokk.is. Þá komu Bóas, söngvari í Reykjavík og Árnir Rúnar í Fm Belfast í félagsmiðstöðina okkar í Austurbæjarskóla og sögðu: Nú setur þú saman band og tekur þátt í söngkeppni skólans,“ segir Unnsteinn Manúel Stefánsson.

Retro Stefson árið 2012Mynd/Ari Magg
Engan óraði fyrir því að örfáum árum síðar yrði hljómsveitin ein sú vinsælasta á Íslandi.

Krakkarnir í hljómsveitinni segir að ekkert ósætti hafi orðið til þess að hljómsveitin sé að hætta en oft hafi reynt á þolrifin.

„Ég veit ekki hversu oft Logi hefur hætt í hljómsveitinni og ég hótað því. Það hefur verið aðalkosturinn við sköpunina, ég kemst ekki upp með að koma með neina hálfbakaða hugmynd inn. Þegar mestu átökin eru í framleiðslunni hefur þetta komið flottast út,“ segir Unnsteinn.

Retro Stefson hefur um árabil verið ein vinsælasta hljómsveit landsins og gefið út fjölmörg vinsæl lög á borð við Glow, Senseni, Kimba og Qween svo dæmi séu tekin.

Lokaball þar sem enginn fer heim án þess að heyra uppáhaldslagið sitt

Það er þó ekki þannig að Retro Stefson muni hverfa í sögubækurnar og ekkert heyrast meir frá sveitinni. Í bígerð er fimm laga plata, Scandinavian Pain, auk þess sem að hljómsveitin mun halda tónleika í Gamla bíó, 30. desember, undir yfirskriftinni Síðasti sjéns.

„Það verður langt ball, það þarf að flytja heilmikið af efni. Það má enginn fara heim án þess að hafa heyrt uppáhaldslagið sitt,“ segir Unnsteinn en þrátt fyrir sveitin sé að nafninu til hætt munu liðsmenn Retro Stefson halda áfram að koma saman.

Sveitin hefur opnað stúdíó á Hverfisgötu þar sem liðsmenn sveitarinnar munu geta komið saman og spilað þegar hentar en erfitt er að koma öllum átta hljómsveitarmeðlimum saman í einu, sem er ein af ástæðunum fyrir því að Retro Stefson verður lögð á ís, í bili að minnsta kosti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×