Enski boltinn

Rashford skoraði í fimmtu frumrauninni: „Hann verður að byrja næsta leik“ | Sjáðu markið

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Marcus Rashford, ungstirnið hjá Manchester United, skorar alltaf í fyrsta leik sínum í öllum keppnum sem hann tekur þátt í.

Hann skoraði í frumraun sinni fyrir United í Evrópudeildinni og ensku úrvalsdeildinni og þá skoraði hann bæði í fyrsta A-landsleiknum og fyrsta U21 árs landsleiknum.

Í gær kom hann inn af bekknum í deildabikarleik United gegn C-deildarliðinu Northampton og skoraði að sjálfsögðu í fimmtu frumrauninni. Phil Neville, fyrrverandi leikmaður Manchester United og sparkspekingur Sky, sagðist eftir leik ekki skilja hvað hann er alltaf að gera á bekknum.

„Hann verður að vera í byrjunarliðinu. Hann byrjaði gegn Watford líka en þegar svona ungur strákur er á flugi verður bara að halda honum í liðinu,“ sagði Neville í beinni útsendingu á Sky Sports eftir leikinn. „Þessi strákur er einstakur. Hann er í góðu formi og að skora mörk. Hann verður að spila að mínu mati.“

„Zlatan er að hjálpa honum mikið en hans helsti kostur er skapferlið. Það er ekki auðvelt að spila sem framherji hjá Manchester United og skora mörk en hann lætur þetta líta auðveldlega út,“ sagði Phil Neville.

Markið hans Rashford gegn Northampton má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×