Innlent

Rappar gegn kvenfyrirlitningu

Kjartan Guðmundsson skrifar
Þórdís setur þá pressu á sjálfa sig að vera best í því sem hún gerir. Það var m.a. þess vegna sem hún hætti að koma fram sem uppistandari.
Þórdís setur þá pressu á sjálfa sig að vera best í því sem hún gerir. Það var m.a. þess vegna sem hún hætti að koma fram sem uppistandari. fréttablaðið/stefán
Þórdís Nadia Semichat sendi frá sér sitt fyrsta lag og myndband, Passaðu þig, í síðustu viku. Hún segir íslenska hipphoppheiminum vera stjórnað af karlmönnum og vill veg kvenna meiri í dægurmenningunni. Kjartan Guðmundsson ræddi við hana.

„Um daginn fékk ég lánaðan iPod hjá fimmtán ára stelpu og hlustaði á fullt af lögum á honum. Ég varð virkilega reið, í alvöru, því það er ógeðslegt að hlusta á texta margra hipphopplaga í dag. Þeir verða sífellt karllægari og ég ákvað að slá til og gefa út lag sjálf, til að berjast gegn þessari þróun, í stað þess að bíða eftir að einhver annar gerði það," segir Þórdís Nadia Semichat sem sendi frá sér sitt fyrsta lag, Passaðu þig, í síðustu viku. Í laginu rappar Þórdís Nadia gegn þeirri kvenfyrirlitningu sem hún telur einkenna hinn íslenska hipphoppheim.

Senunni stjórnað af körlumÞú ert að gefa út þitt fyrsta lag, 27 ára gömul, og ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur?

„Ég var í rapphljómsveit þegar ég var fjórtán ára, en við gáfum ekki út nein lög. Bandið hét fyrst Plan B, þar til við föttuðum að til væri hjólabrettavörumerki með sama nafni, svo við breyttum nafninu í Funk Flames en vorum oftast kynnt á svið sem Fuck Flames. Ég hætti að rappa á sínum tíma vegna þess að strákur, sem síðar rappaði með Rottweilerhundunum, var alltaf að segja okkur í hljómsveitinni að hætta að rappa því við kynnum það ekki. Eitt sinn hitti ég hann á götu og hann byrjaði að ýta við mér og skipaði mér að hætta, því ég væri ógeðslega léleg og mesta drasl sem hann hefði heyrt. Ég tók þetta afskaplega nærri mér og vildi ekki gera neitt eftir þetta. Hann náði að sannfæra mig um eigið óágæti í þessum málum. Fyrir nokkrum árum var ég svo byrjuð í uppistandinu og langaði til að búa til grínkarakter sem rappaði, en þótti það of mikil klisja því það er voðalega auðvelt að gera grín að röppurum. Ég hugsaði málið í dágóðan tíma og ákvað svo að láta vaða. Íslensku hipphoppsenunni er stjórnað af karlmönnum og þótt það hafi verið mjög góðar stelpur að rappa hefur ekkert heyrst frá þeim lengi. Eins eru margar karlasveitir að gera mjög góða hluti, eins og til dæmis Úlfur Úlfur sem ég er verulega ánægð með. Kvenfyrirlitning kemur hvergi fyrir í textum þeirra, en þeir eru mjög vinsælir. En mér finnst of margt af því sem er vinsælt gegnsýrt af kvenfyrirlitningu."

Geturðu nefnt dæmi um slíkt?

„Mér þykir til dæmis mjög skrýtið að Erpur, eða Blaz Roca, megi segja það sem hann segir í sínum textum."

Áttu þá við texta vinsælla laga eins og Við elskum þessar mellur og Viltu dick?

„Til dæmis. Mér finnst ekki nægilega góð réttlæting á textum í þessa veru að svona hafi þetta alltaf verið í hipphoppi. Ef Erpur segði svona hluti í öðrum aðstæðum, til dæmis á vinnustað, yrði hann rekinn samstundis. Eða ef hann talaði svona um ákveðinn kynþátt eða samfélagshóp, Pólverja eða fólk í hjólastólum, hversu margir yrðu sáttir við það?"

Nú vilja ýmsir aðgreina Erp og Blaz Roca, að sá síðarnefndi sé í raun eins konar karakter sem ekki megi rugla saman við manninn.

„Ég þekki Erp ekki persónulega og get því ekki sagt til um það, en ég skynja enga kaldhæðni í mörgu af því sem Erpur segir. Þetta er svipað og með Gillzenegger, sem átti að vera grínkarakter en var hvorki fyndinn né kaldhæðinn."

Fæ stundum samviskubitHipphopptónlist hefur löngum verið gagnrýnd fyrir texta og yfirbragð kvenfyrirlitningar en samt sem áður hlusta margir sem bera hag kvenna fyrir brjósti, kvenmenn og karlmenn, á þessa tegund tónlistar. Skapar það ekki þversögn og hugsanlegt vandamál?

„Ég held að margir velti þessu fyrir sér og vissulega geri ég það. Ég hef hlustað á hipphopptónlist síðan ég var tíu ára og líður oft eins og hræsnara þegar ég heyri gott lag sem mig langar að dansa við, en textinn gerir það að verkum að ég fæ samviskubit. Kvenfyrirlitningin á það líka til að leynast í lögum þótt hún sé ekki aðalmálið. Hún er orðin svo hversdagsleg."

En kemur þá til greina að sniðganga hreinlega tónlist sem stríðir gegn jafnréttisvitundinni?

„Það er erfitt að segja, því svo fátt annað er í boði. Ég get hæglega fundið lög þar sem umfjöllunarefnið er ekki stelpur sem fæddust til að stunda gott kynlíf, en framboðið er lítið. Svipað má segja um bíómyndir og sjónvarp. Maður þyrfti að vera ansi smásmugulegur til að fylgja hugsjóninni eftir út í ystu æsar."

Gerði lagið fyrir stelpurnarHefurðu fengið viðbrögð við laginu ?

„Ég bjóst fastlega við því að lagið og myndbandið [þar sem Þórdís Nadia teymir meðal annars nakinn karlmann í ól] myndu vekja athygli, en ekki svona mikla athygli.

Myndbandinu er ætlað að snúa þessum hefðbundnu kynjahlutverkum á haus og ég held að flestir geri sér grein fyrir því. Viðbrögðin hafa mestanpart verið góð en ég hef líka séð verulega ljótar athugasemdir og aðrar þar sem fólk gagnrýnir framtakið og færir rök fyrir máli sínu. Það er gott og þannig á það að vera. Í ummælum á Facebook sagði einn að hann væri nú alveg til í að ríða mér en ég kynni ekki að rappa fyrir fimmaura. Annar sagði að ég ætti að drífa mig aftur inn í eldhús. Svona ummæli finnst mér bara óttalega krúttleg og get ekki tekið þau inn á mig. Ég hugsa bara „æi" þegar ég les svona lagað.

Leiðinlegast finnst mér þegar ég heyri af öðrum stelpum sem rakka lagið niður. Þeim má auðvitað alveg finnast þetta hallærislegt og ég vonlaus rappari, en ég gerði þetta lag fyrir stelpurnar en alls ekki til að ganga í augun á einhverjum strákum. Á móti kemur að á þessum stutta tíma síðan lagið kom út hafa margar stelpur haft samband við mig og lýst yfir áhuga á að vinna með mér. Sumar hafa sagt mér að þær eigi helling af textum heima hjá sér en hafi aldrei þorað að gera neitt við þá, en nú séu þær tilbúnar. Tvær vinkonur mínar ákváðu meira að segja að stofna hljómsveit strax, svo kannski fer ég bara að vinna að fleiri lögum með fleiri stelpum. Mig langar til að gera plötu og þróa tónlistina betur. Ef einhverjar stelpur hafa áhuga á að vinna með mér mega þær endilega hafa samband við mig, til dæmis í gegnum Facebook."

Lifi ekki fyrir álit annarraÁður en rappið gegn kvenfyrirlitningu kom til hafðirðu getið þér gott orð sem uppistandari, meðal annars með Uppistöðufélaginu sem samanstóð af kvenkyns grínistum, en nú hefurðu sagt skilið við uppistandið. Hvers vegna?

„Ég var í uppistandinu í um tvö ár og var komin með dálítinn leiða á því. Svo er ég líka þannig gerð að þegar ég geri eitthvað finnst mér ég verða að vera best í því og það er dálítið erfitt að vera best í uppistandi. Ég setti mikla pressu á sjálfa mig að vera alltaf ógeðslega fyndin og ef það tókst ekki varð ég ofsalega leið. Þetta tók á andlega og undir lokin var ég orðin pínu bitur. Mér leið eins og ég væri í keppni við grínhópinn Mið-Ísland, þótt líklega hafi enginn annar litið svo á að um nokkra keppni væri að ræða. Til dæmis lenti ég nokkrum sinnum í því að einhver vildi bóka mig til að koma fram og ég nefndi upphæðina sem ég vildi fá fyrir. Þá varð viðkomandi hissa á því að ég rukkaði það sama og Ari Eldjárn, hafði væntanlega fyrst reynt að fá Ara en svo snúið sér að mér til að reyna að lækka verðið. Þessi bransi gengur rosalega mikið út á álit annarra á þér. Þú þarft alltaf að vera fyndin og verður ómeðvitað dálítið upptekin af því hvað öðrum finnst um þig. Ég fílaði það ekki, því mig langar ekki að vera týpan sem lifir fyrir álit annarra. Það voru því nokkrir hlutir sem gerðu það að verkum að ég hætti í uppistandinu."

Orðið fyrir fordómumÞú hefur unnið á Næsta bar í nokkur ár. Á síðasta ári vakti nokkra athygli blogg þitt um fordóma sem þú varðst fyrir í vinnunni. Hver var kveikjan að því?

„Á Næsta bar vinna nokkrir innflytjendur. Pabbi minn er frá Túnis og þar sem ég er dökk upplifði ég þar í raun hvernig er að vera innflytjandi því viðskiptavinir komu fram við mig eins og þá. Stundum er það hálf ógeðslegt. Til dæmis gerðist það oft að fólk vildi kvarta yfir einhverju og talaði því við eigandann, sem er spænskur en talar miklu betri íslensku en ensku. Um leið og fólkið heyrði að hann var með hreim fór það að tala við hann á ensku og varð jafnvel brjálað og hreytti í hann: „Af hverju talarðu ekki íslensku, helvítis útlendingurinn þinn?" Eitt skiptið var ég að afgreiða á barnum og sneri baki í tvo menn þegar annar þeirra sagði: „Djöfull er hún flott þessi. Þær eru svo flottar þessar „tæjur" og alveg trylltar í rúminu." Svo var viðmótið oft þannig að ég væri heimskari en aðrir þegar einhverjir héldu að ég talaði ekki íslensku."

Hefurðu orðið fyrir fordómum á fleiri vígstöðum?

„Áður en ég byrjaði að vinna á Næsta bar hafði ég varla nokkuð orðið fyrir fordómum. En mér finnst vanta meiri fjölmenningu í alla menningu á Íslandi, rétt eins og konur mættu vera meira áberandi í leikhúsum, bíómyndum, auglýsingum og svo framvegis. Þegar ég var fengin til að leika í Inspired by Iceland-auglýsingunni frægu vorum við þrjú sem vorum dökk í útliti sem mættum á tökustað, en hinir voru ljóhærðir og bláeygðir. Þá kom upp úr kafinu að við þrjú áttum að leika túristana. Mér finnst mikilvægt að fjölmenningunni sé gert hærra undir höfði svo það sé fleira í boði fyrir leikara, sem eru ekki alíslenskir, en að leika bara útlendinga."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×