Sport

Raonic vann Federer og leikur til úrslita á Wimbledon-mótinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Milos Raonic fagnar sigri.
Milos Raonic fagnar sigri. Vísir/Getty
Kanadamaðurinn Milos Raonic spilar til úrslita á Wimbledon-mótinu í tennis en hann var undanúrslitaleik sinn á móti Svisslendingnum Roger Federer í dag.

Milos Raonic vann Roger Federer í fimm settum en hann lenti 2-1 undir en tryggði sér sigur með því að vinna síðustu settin 7-5 og 6-3.

Milos Raonic varð þar með fyrsti Kanadamaðurinn sem kemst svona langt í þessu sögufræga móti. Raonic mætir annaðhvort Tomás Berdych eða Andy Murray í úrslitaleiknum en seinni undanúrslitaleikurinn stendur nú yfir.

Þetta verður í fyrsta sinn frá árinu 2002 sem enginn af þeim Novak Djokovic, Roger Federer eða Rafael Nadal spilar til úrslita á Wimbledon-mótinu.  Milos Raonic  varð líka fyrsti tenniskarlinn utan Evrópu í sjö ár til að spila til úrslita.

Novak Djokovic datt út á móti Bandaríkjamanninum Sam Querrey í þriðju umferð, 32 manna úrslitum, en Rafael Nadal gat ekki tekið þátt vegna meiðsla.

Roger Federer verður 35 ára gamall í ágúst og gæti hafa verið að keppa á sínu síðasta risamóti. Það eru einhverjir þegar farnir að veðja á það. Hann á að baki ótrúlega flottan feril en hann hefur unnið sautján risamót þar á meðal Wimbledon-mótið sjö sinnum.

Milos Raonic var í sjötta sæti á styrkleikalista mótsins en hann er að fara að keppa á sínu fyrsta risamóti. Besti árangur hans fram að þessu voru undanúrslit á Wimbledon-mótinu 2014 og undanúrslit á opna ástralska fyrr á þessu ári.

Roger Federer þakkar Milos Raonic fyrir leikinn og óskar honum til hamingju.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×