Innlent

Ráku spænska dómarann útaf flugvellinum

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Mynd/Lögreglan á Suðurnesjum.
Lögreglumenn á Suðurnesjum veittu dómaranum Alberto Undiano Mallenco og aðstoðarmönnum hans tiltal þegar þeir héldu af landi brott í dag. Lögreglumennirnir voru ekki par hrifnir af dómgæslu Spánverjans frekar en flestir aðrir Íslendingar og segir á Facebook-síðu lögreglunnar á Suðurnesjum að dómaratríóið hafi fengið föðurlegt og strangt tiltal.

„Þeir tóku því vel og lofuðu bót og betrun í framtíðinni. Alberto þeim spænska þótti tiltal lögreglumannanna greinilega fyllilega réttmætt því að hann tók upp úr vasa sínum hin löggildu gulu og rauðu FIFA spjöld sem hann notaði í leiknum og gaf okkar mönnum,“ skrifar lögreglan á Suðurnesjum og heldur áfram:

„Skipti þá auðvitað engum togum að okkar menn gáfu þeim þremenningum fyrst gula spjaldið og svo beint í framhaldi af því rauða spjaldið og báðu þá að yfirgefa völlinn (flugvöllinn auðvitað) hið snarasta þar sem þeir ættu ekki annað skilið eftir framistöðu sína í gærkvöldi!“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×