Innlent

Rænd heima hjá sér: Hamaðist á lyftutakkanum en það var um seinan

Bjarki Ármannsson skrifar
Ása Steinunn Atladóttir í lyftunni í fjölbýlishúsi þeirra í Sólheimum.
Ása Steinunn Atladóttir í lyftunni í fjölbýlishúsi þeirra í Sólheimum. Vísir/Vilhelm
Ása Steinunn Atladóttir hjúkrunarfræðingur lenti í því leiðinlega atviki aðfaranótt föstudags að eigum hennar var stolið úr lyftunni í fjölbýlishúsinu þar sem hún býr. Um var að ræða tvo poka með vörum úr fríhöfninni en hún var nýkomin heim úr vikuferð til útlanda.

„Ég hafði komið við í tollinum og keypti bara eins og ég mátti kaupa,“ segir Ása Steinunn. „Þarna var líkjör, bjór, sígarettur og bara þetta sem maður kaupir í tollinum. Ég þurfti líka að kaupa rándýrt ilmvatn fyrir eina konu.“

Ása býr í tólf hæða fjölbýlishúsi við Sólheima í Reykjavík. Umrætt kvöld tók hún lyftuna upp á þriðju hæð með pokana tvo, tvær ferðatöskur og handtösku.

„Ég er að taka út ferðatöskurnar en á eftir handtöskuna og fríhafnarpokana. Þá lokast óvart lyftan, ég missi hana svona frá mér. Hún fór bara beint upp á einhverjar efri hæðir. Ég náttúrulega hamast á takkanum og hún kom svo eftir smástund aftur niður.“

Ása Steinunn segir að þegar lyftan sneri aftur á þriðju hæðina hafi verið í henni maður og kona en taskan og pokarnir horfnir. Ekki er hægt að fylgjast með því við lyftuinnganginn á hvaða hæðir lyftan fer og Ása segist ekki hafa náð að spyrja parið hvaðan þau voru að koma. Hún veit ekki hvað þau heita eða hvar þau búa.

„Ég segi, heyrðu hvar eru pokarnir og taskan mín,“ segir hún. „Það var ekkert í lyftunni þegar við komum inn, segja þau. Ég náttúrulega veit ekki hvort það er satt eða ekki. En ég á erfitt með að trúa því að það hafi verið fleiri að bíða eftir lyftunni á efri hæðum klukkan eitt um nótt.“

Handtöskunni skilað en verðmæta enn saknað

Ása segist hafa orðið mjög reið þegar hún áttaði sig á því að einhver hefði hreinlega tekið eigur hennar úr lyftunni. Hún hafi strax brugðist við með því að hengja upp í lyftunni miða þar sem hún bað um að þeim yrði skilað sem fyrst.

„Og hálftíma síðar sá nú þjófurinn að sér og setur handtöskuna aftur í lyftuna. Í henni voru náttúrulega síminn minn og peningaveskið með öllum kortunum. En ég setti aftur annað bréf og sagði að ég vildi líka fá pokana.“

Pokarnir úr fríhöfninni hafa enn ekki skilað sér og hefur þjófnaðurinn verið kærður til lögreglu. Ása Steinunn segist þó ekki vongóð á að sjá munina aftur en telur verðmæti þeirra nema í kringum 25 til þrjátíu þúsund krónur.

„Svo tæmdi ég líka pósthólfið þegar ég kom inn og pósturinn var ofan í pokunum. Þannig að ég tapaði honum líka. Ég er svona að spá í að skrifa þjófnum annað bréf í lyftunni, hvort hann væri nú til í að skila póstinum bara í pósthólfið.“

„Fyllir mann óöryggi“

Ása Steinunn segir íbúa hússins slegna yfir því sem gerðist. Hún segir þjófnaðinn árás á alla þá sem þar búa.

„Þetta fyllir mann svo miklu óöryggi,“ segir hún. „Við eigum núna í hættu að ef við lítum af einhverju, þá sé það bara tekið. Ég var í útlöndum og þar var maður alltaf að fylgjast með töskunni. En svo bara rétt missir maður af lyftunni í húsunni sem þú býrð í og þá er allt tekið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×