Enski boltinn

Pressan náði til sumra leikmanna Tottenham og þeir frusu

Christian Eriksen og Toby Alderweireld ganga svekktir af velli.
Christian Eriksen og Toby Alderweireld ganga svekktir af velli. vísir/getty
Tottenham er líklega úr leik í baráttu um enska meistaratitilinn eftir 1-1 jafntefli gegn West Bromwich Albion á útivelli í gærkvöldi. Leicester þarf nú aðeins einn sigur í síðustu þremur leikjum sínum til að verða meistari.

Tottenham komst yfir í fyrri hálfleik með sjálfsmarki Craig Dawson en Dawson bætti upp fyrir mistök sín í seinni hálfleik og jafnaði metin. Spurs var betri aðilinn og hefði getað skorað fleiri mörk en allt kom fyrir ekki.

Graeme Souness, sparkspekingur Sky Sports, var gestur Monday Night Football í gærkvöldi og sagði að pressan hefði einfaldlega náð til þessa unga Tottenham-liðs.

„Þetta Tottenham-lið er það yngsta í úrvalsdeildinni og enginn í liðinu hefur verið nálægt því að vinna titilinn áður,“ sagði Souness.

„Það leit því svo sannarlega út eins og pressan hafi náð til sumra í seinni hálfleiknum. Þetta urðu stressandi aðstæður og þeim fannst þeir þurfa annað mark.“

Souness segir að Tottenham hefði átt að vera meira yfir en 1-0 í hálfleik en í seinni hálfleiknum hafi liðið ekki verið svipur hjá sjón.

„Aldrei í seinni hálfleik hefði maður sem stuðningsmaður Tottenham sagt að liðið væri líklegt til að skora eða það væri að stýra leiknum. Sumir leikmenn Tottenham einfaldlega frusu,“ sagði Graeme Souness.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×