Innlent

Pólski ferðamaðurinn látinn

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Arkadiusz Pawel Maciag.
Arkadiusz Pawel Maciag. Vísir
Pólski ferðamaðurinn sem leitað var að í nótt og morgun fannst látinn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni. Maðurinn fannst á Miðnesheiði norður af öryggisgirðingu sem afmarkar haftasvæði Keflavíkurflugvallar um hádegisbil í dag. 

Maðurinn hét Arkadiusz Pawel Maciag og var um 42 ára gamall. Hann var í heimsókn hjá vinafólki sínu hér á landi. Samkvæmt tilkynningu lögreglunnar átti hann við andleg veikindi að stríða.

Víðtæk leit var gerð að Maciag og var þyrla Landhelgisgæslunnar meðal annars notuð í leitina. Á annað hundrað leitarmanna tóku þátt í leitinni þegar mest var. Björgunarsveitarmenn hófu leit um klukkan 23 í gærkvöldi en skipuleg leit að honum hófst um miðnætti.

Hann fór af dvalarstað sínum hér á landi um klukkan hálf sex í gær og þegar hann skilaði sér ekki heim leituðu ættingjar hans til lögreglu.

Af og til náðist símasamband við hann á meðan leitinni stóð en hann gat ekki gefið greinargóða lýsingu á staðháttum. Um klukkan eitt í nótt ræddi maðurinn símleiðis við ættingja og gat þá ekki gert grein fyrir því hvar hann var en sagðist vera orðinn blautur og kaldur.

Ekki er talið að andlát hans hafi borið að með saknæmum hætti en lögreglan á Suðurnesjum fer með rannsókn málsins.



Tengdar fréttir

Leitin engan árangur borið

Víðtæk leit að Arkadiusz Pawel Maciag, liðlega fertugum pólskum karlmanni, sem hófst á Reykjanesi upp úr miðnætti, hefur enn engan árangur borið.

Víðtæk leit að ferðamanni á Reykjanesi

Víðtæk leit hefur staðið í alla nótt á Reykjanesi að Arkadiusz Pawel Maciag, liðlega fertugum pólskum karlmanni, sem er í heimsókn hjá vinafólki hér á landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×