Skoðun

Pálmaolía, ódýr og góð olía eða olía á eldinn?

Þórhildur Fjóla Kristjánsdóttir skrifar
Undanfarin ár hefur verið mikil vitundarvakning í Noregi meðal neytenda varðandi notkun á pálmaolíu í matvælum. Þessi vitundarvakning hefur meðal annars leitt til þess að einn stærsti aðilinn á norskum matvörumarkaði, REMA1000, hefur hætt alfarið að nota pálmaolíu í sínum matvælum. Nú eru matvæli sem áður innihéldu pálmaolíu merkt með stolti og stórum stöfum „Pálmaolíufrítt“. En pálmaolía er mikið notuð í allskyns matvælum, t.d eins og kexi, ís, frönskum kartöflum og fjölmörgu fleiru.

Af hverju er REMA1000 hætt að nota pálmaolíu? Er hún ekki bara ódýr og meinlaus olía? Hið lága verð á pálmaolíunni, en hún er ein ódýrasta olían á heimsmarkaði, skýrir um margt hina miklu notkun á henni. Pálmaolía er ræktuð í hitabeltislöndum eins og Indónesíu, Malasíu og Kólumbíu. En pálmaolíuplantan vex hratt og gefur fljótt af sér afurð. Stór regnskógasvæði eru einmitt í hitabeltislöndunum. Regnskógunum er í dag eytt til að koma pálmaolíuökrum fyrir. En þessi eyðing regnskóganna er eitt helsta umhverfisvandamál jarðarinnar. Með eyðingu regnskóganna dregst kolefnislager jarðarinnar saman og kolefni sem annars myndi vera tekið upp í regnskógunum fer út í andrúmsloftið. Einnig er náttúru- og dýralíf í regnskógunum það fjölbreyttasta á jörðinni og þar lifa nú fjölmargar dýrategundir í útrýmingarhættu.

Þar af leiðandi er það afar brýnt að stöðva eyðingu regnskóganna til að stemma stigu við loftslagsbreytingum og vernda lífríkið á jörðinni. Með því að skipta pálmaolíunni út, til dæmis fyrir repjuolíu eða aðrar olíur sem eru ekki ræktaðar á þessum svæðum, er hægt að stuðla að verndun regnskóganna. Pálmaolían er ekki einungis slæm fyrir umhverfið, heldur er hún einnig slæm heilsu manna. Rannsóknir sýna að hún er ekki góð fyrir hjartað þar sem hún eykur kólesteról. Það er því til margs að vinna bæði umhverfis- og heilsufarlega séð þegar hætt er að nota og borða pálmaolíu. Þess vegna er REMA1000 hætt að setja pálmaolíu í sínar matvörur, vegna samfélagslegrar ábyrgðar og ósk um að taka þátt í verndun umhverfisins. Þú getur byrjað með því að kanna innihaldið á matvælunum þínum og reynt að forðast þær matvörur sem innihalda pálmaolíu.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×