Innlent

Páll Magnússon tekur við Sprengisandi á Bylgjunni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Páll Magnússon verður í brúnni í fyrsta skipti á sunnudagsmorgun klukkan 10.
Páll Magnússon verður í brúnni í fyrsta skipti á sunnudagsmorgun klukkan 10. Vísir/GVA
Páll Magnússon verður nýr umsjónarmaður útvarpsþáttarins Sprengisandur á Bylgjunni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá útvarpssviði 365. Þátturinn hefur verið á dagskrá um langt skeið og notið mikilla vinsælda þar sem stjórnmálaumræða og landsmál hafa verið í fyrirrúmi. Umræða í þættinum er regluleg uppspretta frétta.

„Ég er mjög spenntur fyrir því að byrja með þennan þátt – útvarp hentar að mörgu leyti betur fyrir samfélagsumræðu af þessu tagi en sjónvarp. Bylgjan á sér langa og merkilega sögu í þessum efnum og það er gaman að fá að takast á við þetta á þessum vettvangi,“ segir Páll sem tekur við umsjón þáttarins af Sigurjóni Magnúsi Egilssyni.

Páll hefur víða komið við í fjölmiðlaheiminum og starfaði áður sem útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins og sem fréttastjóri Stöðvar 2. Páll hefur lengi haft áhuga á pólitík og landsmálum.

„Það verður mjög spennandi að vinna með Páli og mikil lyftistöng fyrir Bylgjuna að fá hann til liðs við okkur.  Glerharður reynslubolti frá Vestmannaeyjum,“ segir Ágúst Héðinsson, yfirmaður útvarps og sports.

Páll tekur við þættinum strax og verður fyrsti þátturinn í hans umsjá næstkomandi sunnudag, á hefðbundnum tíma á milli klukkan tíu og tólf í beinni útsendingu á Bylgjunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×