Fótbolti

Ótrúleg saga Martunis: Lifði af flóðbylgjuna og fékk atvinnumannasamning

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hér er Martunis sjö ára gamall, ári eftir að flóðbylgjan skall á heimili hans.
Hér er Martunis sjö ára gamall, ári eftir að flóðbylgjan skall á heimili hans. Vísir/Getty
Knattspyrnufélagið Sporting frá Lissabon tilkynnti í dag að félagið hafi samið við sautján ára leikmann frá Indónesíu að nafni Martunis.

Saga hans er harla óvenjuleg en þegar Martunis var sex ára gamall lifði hann af flóðbylgjuna á Indlandshafi sem varð meira en 230 þúsund manns að bana. Þar af voru rúmlega 130 þúsund í Indónesíu, flestir í Aceh-héraðinu í norðurhluta landsins.

Með Luiz Felipe Scolari árið 2005, þáverandi landsliðsþjálfara Portúgal.Vísir/Getty
Martunies, sem er sautján ára í dag, missti móður sína og tvær systur í óförunum en flóðbylgjan bar hann út á haf þar sem honum tókst þó að komast lífs af. Eftir 21 dag fannst hann á yfirgefinni strönd og komið skjól hjá fréttamanni Sky News.

Saga hans vakti heimsathygli en ekki síst í Portúgal þar sem drengurinn var klæddur í landsliðstreyju Portúgal, af Rui Costa.

Meðal þeirra sem heilluðust af drengnum var Cristiano Ronaldo sem veitti fjárstuðning svo að hægt væri að endurbyggja heimili Martunis þar sem hann svo ólst upp með eftirlifandi fjölskyldu sinni.

Ronaldo og Martunis hafa hist við nokkur tilefni síðan þá en sá síðarnefndi fær nú tækifæri til að fylgja í fótspor Ronaldo sem tók sín fyrstu skref sem atvinnumaður hjá Sporting í Lissabon. Þar mun hann fyrst um sinn leika með U-19 ára liði félagsins.

Martunis hitti Ronaldo aftur árið 2013.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×