Innlent

Óþægilegt að vera bendlaður við svona mál

Lögreglan hefur á tæpum tveimur mánuðum fengið 23 tilkynningar um að óprúttnir aðilar hafi reynt að lokka börn upp í svartan bíl. Ekki eru allar þessar ábendingar á rökum reistar eins og leigubílstjóri hér í borg komst að fyrir helgi.

Tilkynningarnar hafa borist alls staðar að af höfuðborgasvæðinu en aðeins eru 5 af 23 málum eru upplýst. Meðal annars það síðasta, sem varðar Styrmir Þorgeirsson leigubílstjóra sem á fimmtudag var sendur í Sæmundarskóla að sækja farþega.

Ég kem hérna að skólanum og sé hér barn sem horfir mikið á bílinn. Ég skrúfa niður gluggann og segir: Varst þú að panta bíl? Nei, segir hún og rétt á eftri sé ég mann veifa við hornið á skólanum sem er náttúrlega farþeginn. Ég sé svo útundan mér að stúlkan hleypur inn í skólann og ég er ekkert meira að hugsa um það fyrr en konan mín segir mér það að það sé verið að leita að svörtum skutbíl sem hafi verið að lokka barn upp í bílinn hér við skólann," segir Styrmir.

Litla stúlkan sem Styrmir hafði séð hafði sem sagt látið skólastjórnendur vita af manninum í svarta bílnum og málið endaði á borði lögreglu. Þennan misskilning náðist reyndar að leiðrétta fljótt en hann er kannski til marks um þann vanda sem lögreglan stendur frammi fyrir.

Því lögreglan tekur allar ábendingar alvarlega en segir ýmislegt benda til þess að til að allt þetta mál eigi rætur að ríkja í stríðni eða ljótum leik óprúttinna aðila. Sem hafi svo aftur skapað þá hræðslu sem orsakar tilkynningar á borð við þessa í Sæmundarskóla.

Styrmir leigubílstjóri segist guðslifandi feginn að misskilningurinn hafi leiðréttur í hans tilviki. Það sé óþægilegt að vera bendlaður við svona mál.

„Þetta var afar óþægilegt, það er ekki hægt að orða það öðruvísi," segir Styrmir að lokum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×