Skoðun

Öngstræti í Evrópumálum

Jóna Sólveig Elínardóttir skrifar
ESB þróast á ógnarhraða þessa dagana. Þetta á einkum við á fjármálasviðinu en ríki ESB vinna nú hörðum höndum að þróun Bankabandalags Evrópu sem hefur það yfirlýsta markmið að búa innri markaði Evrópu öruggari og tryggari fjármálageira. Þessi þróun hefur bein áhrif á kjarna EES-samstarfsins – innri markaðinn – og þar af leiðandi beinar afleiðingar fyrir Ísland.

Reglur fyrir banka - fyrir neytendur

Hið nýtilkomna bankabandalag byggir á tveimur meginstoðum: Sameiginlegu fjármálaeftirlitskerfi svo og bankagjaldþrotskerfi. Þessar stoðir standa á sameiginlegum grunni: Samevrópsku regluverki fyrir fjármálastofnanir á innri markaði Evrópu (Single Rulebook) sem á m.a. að tryggja Evrópubúum aukna vernd ef bankinn þeirra fer á hausinn.

Markmið evrópska fjármálaeftirlitsins er að skapa stöðugleika í fjármálageiranum, skapa réttlát lánsskilyrði í allri Evrópu og sjá til þess að bankar, en ekki skattgreiðendur, borgi fyrir sín eigin mistök. Fram kemur í síðustu yfirlitsskýrslu sendiráðs Íslands í Brussel að „ESB og EFTA-ríkin vinn[i] nú sameiginlega að lausn fyrir EFTA-ríkin við að innleiða reglur á sviði sameiginlegs fjármálaeftirlits“. Það er því ljóst að Ísland sér hag sinn í því að taka þátt í nýja fjármálaeftirlitskerfinu, enda myndi það auka tiltrú og traust á bankakerfi landsins. Hins vegar á Ísland mjög erfitt með það því lögfræðiálit komast ítrekað að þeirri niðurstöðu að það feli í sér of mikið framsal ríkisvalds til yfirþjóðlegra stofnana til að geta staðist stjórnarskrána. Þeim sérlausnum sem lagðar voru til við ESB var hafnað.

Málið hefur því staðið fast í kerfinu frá 2012 og engin lausn í sjónmáli. Á meðan engin lausn finnst nýtur Ísland ekki góðs af því öfluga stuðningsneti sem evrópska fjármálaeftirlitskerfið veitir. Þá er ljóst að á meðan ástandið er svona starfa íslenskir bankar ekki í jafn öruggu starfsumhverfi og evrópskir bankar sem hefur neikvæðar afleiðingar fyrir samkeppnishæfni þeirra og þar með íslenskan almenning sem nýtir sér þjónustu þeirra.

Áskoranir

Aðildin að innri markaðinum, sem EES-samningurinn veitir, hefur reynst Íslandi mjög vel. Ef við ætlum hins vegar að geta notið góðs af þeim betrumbótum sem orðið hafa á löggjöf innri markaðarins síðastliðin ár og veitt íslenska fjármálageiranum betri umgjörð og aðhald en áður hefur þekkst, verðum við að tryggja að íslensk lög á sviði fjármálaþjónustu rími við löggjöf ESB.

Áskorunin sem íslenskir stjórnmálamenn standa frammi fyrir er að svara því hvernig EES-samstarfið á að geta staðið sem grunnurinn að framtíðarsamskiptum Íslands og ESB ef ekki er hægt að finna leið til að innleiða EES-löggjöf á Íslandi. Hvernig ætlum við að tryggja íslenskum bönkum sambærilegt stuðningsnet við það sem samkeppnisaðilar þeirra í Evrópu hafa, ef við erum ófær um að innleiða viðeigandi EES-löggjöf?




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×