Innlent

Ólíklegt að skotið hafi verið úr haglabyssu í Kópavogi í gær

Lögreglu hafa í dag borist fleiri tilkynningar frá íbúum sem heyrðu skothvell við fjölbýlishúsið í gær.
Lögreglu hafa í dag borist fleiri tilkynningar frá íbúum sem heyrðu skothvell við fjölbýlishúsið í gær. VISIR/VILHELM
Lögreglan telur ólíklegt að skotið hafi verið úr haglabyssu í fjölbýlishúsi í Kópavogi í gær þótt ekki sé komin fram nein skýring á hvelli sem fjöldi íbúa í nágrenninu tilkynnti lögreglu. Augljós ummerki eru þó um að áður hafi verið skotið úr haglabyssu í garði hússins.

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust þrjár tilkynningar á fjórða tímanum í gær um skothvell í íbúð á jarðhæð við Hlíðarhjalla 53 í Kópavogi. Allt tiltækt lögreglulið var sent á vettvang auk sérsveitar ríkislögreglustjóra og var umsátur um húsið í sex klukkustundir.

Það var síðan á níunda tímanum í gærkvöldi sem sérsveit ríkislögreglustjóra réðst  inn í íbúðina en hún reyndist mannlaus. Í henni fannst haglabyssa auk skotfæra og samkvæmt heimildum fréttastofu fannst skotvopnið á gólfi íbúðarinnar og tóm skothylki við hlið þess.

„Sá sem á íbúðina, hann var klárlega ekki í íbúðinni í gærdag. Þannig að í öllu falli er hann ekki hinn meinti skotmaður, ef einhver er,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Lögreglu hafa í dag borist fleiri tilkynningar frá íbúum sem heyrðu skothvell við fjölbýlishúsið í gær.

Á grundvelli þessara tilkynninga sem þið fáið í gær og fleiri í dag, gerið þið ráð fyrir því að skotið hafi verið úr haglabyssu í blokkinni í gær?

„Við getum ekki útilokað það. En eftir því sem að dagurinn er að þróast hjá okkur þá finnst okkur það jafnvel ólíklegra og þess vegna erum við að skoða aðra möguleika,“ segir Ásgeir.

En þó ekki hafi verið skotið úr haglabyssu við fjölbýlishúsið í gær er ljóst að það var gert á einhverjum tímapunkti eins og augljós ummerki eru um á grindverki fyrir utan íbúðina. Þá fundu íbúar um síðustu helgi högl úr skotvopni í garðinum og tilkynntu málið til lögreglu. Ekki hefur verið staðfest hvort eigandi íbúðarinnar hafi verið þar að verki en maðurinn hefur skotvopnaleyfi og er skráður fyrir vopninu sem fannst á heimili hans. Hann hefur ekki verið yfirheyrður.

„Eftir að málinu lauk í gær, bæði í gærkvöldi og í morgun, hafa nokkrir íbúar í hverfinu haft samband við lögreglu og í raun og veru verið að tilkynna að þeir hafi mögulega heyrt hvelli sem gætu hafa verið skothvellir. En þá erum við að tala um einhverjar vikur aftur í tímann,“ segir Ásgeir.

Heimildir fréttastofu herma að íbúum hafi verið tilkynnt af lögreglu í gærkvöldi hvar eigandi íbúðarinnar sé niðurkominn. Þeir íbúar sem fréttastofa ræddi við í dag segja málinu lokið og ekki sé ástæða til að hafa frekari áhyggjur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×