Innlent

Ólafur Ragnar segir kosningabaráttuna aldrei hafa verið jafn pólitíska

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Ólafur Ragnar var gestur Páls Magnússonar í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.
Ólafur Ragnar var gestur Páls Magnússonar í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, segist ekki vilja takmarka þann fjölda kjörtímabila sem forseti má gegna embætti. Verði það þó gert þá eigi einnig að takmarka fjölda kjörtímabila hjá ráðherrum og þingmönnum. Þá segir hann kosningabaráttuna fyrir komandi forsetakosningar aldrei hafa verið jafn pólitíska en sjálfur mun hann ekki kjósa í kosningunum.

Ólafur Ragnar var gestur Páls Magnússonar í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Ólafur fór í ítarlegu viðtali yfir það helsta á sínum tuttugu árum í embætti forseta en einnig yfir það sem framundan er.

Besta tryggingin er vilji fólksins

Ólafur var meðal annars spurður um þá hugmynd að takmarka þann fjölda kjörtímabila sem forseti gegnir embætti, en allir frambjóðendur í komandi forsetakosningum eru sammála um að takmarka eigi þann tíma. Þá er í stjórnarskrártillögum stjórnlagaráðs miðað við að forseti geti ekki gegnt embætti lengur en þrjú kjörtímabil.

„Mér finnst að ef það eigi að taka upp þá reglu að þá eigi hún að gilda um þingmenn og ráðherra líka,“ segir Ólafur Ragnar. „Vegna þess að þingmenn og ráðherrar í okkar stjórnkerfi geta haft víðtækari áhrif og meiri völd heldur en forsetinn. Maður sem situr á Alþingi í þrjátíu ár hefur meiri möguleika til að gera sig gildandi, tala nú ekki um ef menn verða ráðherrar árum saman.“

Ólafur sagði að tryggingin fyrir lýðræðislegu stjórnarfari væri ekki reglur heldur vilji fólksins í landinu. Það mikilvægasta sem hann hafi lært á sínum tuttugu árum í embætti væri að treysta dómgreind hins almenna manns.

Eigum við þá kannski ekkert að vera að hafa áhyggjur af þessu að setja þetta þannig séð ofan frá, segja bara þeir bjóða sig fram sem vilja eins oft og þeir vilja og þjóðin kýs þá eins oft og þeir vilja?

„Já ég er eiginlega þeirrar skoðunar að besta tryggingin fyrir farsælu lýðræði sé vilji fólksins,“ segir Ólafur.

Ríkisráðsfundur eins og gamall flokksfundur í Alþýðubandalaginu

Ólafur Ragnar fór einnig yfir sögu Icesave-málsins á Sprengisandi í morgun. Rifjar Ólafur upp að þegar minnihlutastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók við völdum í ársbyrjun 2009 hefði hún verið skipuð gömlum samherjum.

„Þegar ég settist fyrir endann á ríkisráðsborðinu þegar ríkisstjórn Jóhönnu tók við, og horfði á þá sem þar voru, og svo þegar meirihlutastjórnin tók við nokkrum mánuðum seinna, þá höfðu allir þeir sem höfðu verið flokksbundnir við ríkisráðsborðið, nema Jóhanna, verið í Alþýðubandalaginu þegar ég var formaður Alþýðubandalagsins. Þetta var eins og að koma á gamlan flokksfund í Alþýðubandalaginu,” segir Ólafur.

Í ársbyrjun 2010 hefði hann síðan staðið frammi fyrir því að ganga gegn öllu þessu fólki í Icesave-málinu. Ganga gegn einu ríkisstjórninni í sögu lýðveldisins sem var hreinræktuð vinstri stjórn. Þá hefðu öll ríki í Evrópu verið á móti þeirri ákvörðun að vísa samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu.

„Mér finnst rétt að forsetinn sé ekki að stuðla að vangaveltum um það hvern hann hafi kosið,“ segir Ólafur Ragnar.
„Í sjálfu sér var sjálft hrunið kannski ekki það alvarlegasta fyrir mig,“ segir Ólafur Ragnar. „Heldur að standa frammi fyrir því í ársbyrjun 2010 að ég yrði einn að taka ákvörðun um það, í andstöðu við ríkisstjórn, þing og nánast alla sérfræðinga í landinu, allar ríkisstjórnir í Evrópu, að verða við kröfu Íslendinga, hins almenna manns, um það að fá að greiða um þetta atkvæði og taka áhættuna. Ekki fyrir mig persónulega heldur fyrir þjóðina.“

Ætlar ekki að kjósa á laugardaginn

Ólafur var einnig spurður um komandi forsetakosningar en hann sagði umræðuna í kosningabaráttunni hafa verið efnisríka. 

„Ég hef oft verið gagnrýndur á þessum árum fyrir að hafa á einhvern hátt búið til það sem kallað er hið stjórnskipulega vægi eða pólitíska vægi í embættinu,“ segir hann. „Þessi umræða núna, í þessum forsetakosningum, er pólitískasta umræða sem nokkurn tímann hefur farið fram í forsetakosningum. Og ég er þess vegna mjög ánægður með það að þeir sem hafa verið að gagnrýna mig og halda að þetta sé eitthvað fiff sem ég hef búið til, þeir skuli núna standa frammi fyrir því að þegar ég er ekki lengur á vellinum, að þá er umræðan um forsetaembættið pólitískari en hún hefur nokkru sinni verið.“

Ólafur segist ekki ætla að kjósa í kosningunum á laugardaginn. 

„Ég hef aldrei kosið í þingkosningum, ég hef bara kosið í forsetakosningum þegar ég hef verið sjálfur í kjöri og svo kaus ég í Icesave kosningunum. En mér finnst rétt að forsetinn sé ekki að stuðla að vangaveltum um það hvern hann hafi kosið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×