Golf

Ólafía: Erfiða hlutanum lokið og nú er bara að njóta

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er komin áfram í Ástralíu.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er komin áfram í Ástralíu. Vísir/Getty
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir fékk að upplifa ýmislegt á öðrum keppnisdegi ISPS Handa mótsins í Ástralíu, öðru móti ársins á LPGA-mótaröðinni.

Hún var með þeim síðustu til að komast í gegnum niðurskurðinn en gerði það með því að fá fugla á síðustu tveimur holunum. Ólafía gerði sér lítið fyrir og vippaði fyrir fugli á átjándu holu. Par á þeirri holu hefði þýtt að hún hefði ekki komist áfram.

„Dagurinn í dag var svolítil áskorun. Það blés svolítið á móti en ég ákvað að hætta aldrei. Alls ekki gefast upp,“ sagði hún í samtali við Vísi eftir hringinn í dag.

Sjá einnig: Ólafía Þórunn bjargaði sér á fuglasöng í lokin

Hún segir að vindurinn hafi verið að stríða henni í Adelaide. „Nokkrum sinnum breyttist hann á meðan ég var að slá og er ekkert sem maður getur gert í því. Þar af leiðandi missti ég af nokkrum flötum,“ segir Ólafía en hún fékk þrjá skolla í röð - á þrettándu, fjórtándu og fimmtándu holu. Var þá útlitið orðið dökkt.

„Á síðustu holunum vissi að ég þyrfti að gefa allt,“ sagði Ólafía sem kom sér í púttfæri fyrir erni á sautjándu holu en krækti.

Sjá einnig: Ólafía söng og dansaði eftir hringinn | Myndband

„Það var sárt, en alveg í takt við hinar krækjurnar á holunum á undan. Á átjándu holu fékk ég svo loksins eitthvað gott til baka,“ sagði hún og vísaði til þess að hún vippaði fyrir fugli, sem tryggði henni áframhaldandi þátttöku.

„Nú er erfiða hlutanum lokið og bara eftir að njóta,“ sagði hún enn fremur en Ólafía er með áframhaldandi þátttöku búin að  tryggja sér verðlaunafé á sínu öðru móti í röð.

Sýnt verður beint frá ISPS Handa-mótinu á Golfstöðinni og hefst útsending frá þriðja keppnisdegi klukkan 02.00 í nótt. Tryggðu þér áskrift á 365.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×