Skoðun

Óheftur einkarekstur í heilbrigðisþjónustu er ekki lausnin

Ólafur Ólafsson og Lýður Árnason skrifar
Vegna greinar um dýrt heilbrigðiskerfi í Bandaríkjunum (BNA) þann 12. september síðastliðinn í Fréttablaðinu, sem er líklega svar við grein er við rituðum um efnið fyrir nokkru, er nauðsynlegt að skýra málið frekar. Um markaðsrekstur ber að hafa í huga að margt mælir gegn því að hagkvæmt sé fyrir sjúklinga að í heilbrigðisþjónustunni ríki óheftur einkarekinn markaðsrekstur. Orsökin er að kaupandi þjónustunnar þekkir ekki vel gang sjúkdómsins og því síður til verka læknisins.

Rekstur og kostnaður

Yfirgnæfandi meirihluti íbúa í BNA eða nær 70% býr við óheftan einkarekinn markaðsrekstur án opinbers efnahagslegs eftirlits í heilbrigðisþjónustu: þ.e. 53% íbúa eru tryggðir hjá einkatryggingarfélögum en 15% eru ótryggð með öllu og því óvarin gegn markaðsrekinni þjónustu sem stóreykur kostnaðinn. Medicare og Medicaid tryggingar sem greiddar eru af ríkisfé ná aðeins til um 30% íbúanna. Framlög ríkisins (BNA) sem eru aðeins 47% af heildargreiðslum til heilbrigðisþjónustunnar, borið saman við um 80% greiðslu ríkisins meðal Norðurlanda og frjálsra trygginga í Mið-Evrópu, greiða aðeins fyrir Medicare og Medicaid ásamt rekstri sýslusjúkrahúsa sem eru álitin skrefi lægri að gæðum en háskóla- og einkasjúkrahús sem eru jafnframt í einkaeigu. (Health at a Glance. OECD. 2013.) Á Norðurlöndum eru 80% af rekstri heilbrigðisþjónustunnar greidd með skattafjármögnun en í Mið-Evrópu tæp 80% í gegnum frjáls tryggingafélög sem eru undir opinberu eftirliti.

Ekki er því um að ræða víðtækt niðurgreiðslukerfi ríkisins eins og haldið er fram í fyrrnefndri grein.

Fullyrðingar um að rekja megi hinn gífurlega kostnað til framlaga ríkisins fá því ekki staðist. Einkasjúkrahúsum er tryggt mikið sjálfsdæmi í lögum án efnahagslegs eftirlits samfélagsins og afleiðingin er að vistunarkostnaður er margfalt hærri en gerist á Norðurlöndum og Mið-Evrópu. Til dæmis er algengt að dagsvistun á sérdeildum einkasjúkrahúsa kosti allt að 9.000 dollara en vikudvöl 70.000 dollara (um 10 millj.ísl.króna). (Bitter Pills, Times, 5.2013.) Önnur dæmi um afleiðingu næsta óhefts markaðsreksturs eru m.a. eftirfarandi:

Afleiðing óheftrar markaðsrekinnar heilbrigðisþjónustu í BNA er að heildarkostnaður er 75% til 94% hærri en á Norðurlöndum og í Mið-Evrópu eftir því hvort miðað er við hlutfall af vergri landframleiðslu eða kaupmáttargildi í dollurum. (Health at a Glance, OECD 2013).

Heildargæði

Öllu alvarlegra er að þrátt fyrir mörg frábær sjúkrahús og forystuhlutverk BNA í vísindastörfum er gífurlegur ójöfnuður í þjónustunni og þar af leiðandi lélegur og illa skilvirkur heildarárangur. Sem dæmi má nefna að heildarævilíkur eru lægri og dánartíðni 15-60 ára er marktækt (p<0,001) hærri í BNA en á Norðurlöndum og Mið-Evrópu. Enn fremur er dánartíðni barna hærri og heilsufar ungbarna innan eins árs eftir fæðingu mun lakari ásamt mæðradauða við fæðingu sem er marktækt (p<0,001) hærri en á Norðurlöndum og í Mið-Evrópu; þennan mun má að verulegu leyti rekja til ójafnaðar í þjónustu, m.a. lélegra mæðraeftirliti, hærri barnadauða og mæðradauða og lélegra mæðraeftirliti meðal svartra íbúa. (World Health Statistics. WHO. 2011, og Health at a Glance 2013). Vera má að nokkur rekstrarleg samkeppni ríki í BNA, en á Norðurlöndunum og Mið-Evrópu ríkir helst samkeppni á faglegu sviðinu. Tekið skal fram að skattar eru lægri í BNA en í Evrópu. Nú hefur Obama forseti lagfært tryggingamálin. Talið er að það hafi tekist vegna þess að meirihluti stóriðnaðarfyrirtækjanna komst að því að mikill einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni hafði valdið starfsfólki þeirra alvarlegum sjúkdómsvanda og hreinlega skaðað fólk (N. Chomsky hagfræðingur, áður ráðgjafi forsetans 2012).

Lokaorð

Eftir stendur að óheftur einkarekstur og mikill markaðsrekstur í heilbrigðisþjónustu er ekki lausn og veldur ójöfnuði og stóreykur kostnað eins og alþjóðaskýrslur frá OECD og WHO sanna. Enn fremur má geta þess að niðurstaða margra alþjóðlegra rannsókna hafa leitt í ljós að heildarkostnaður við skattafjármagnaða heilbrigðisþjónustu ásamt tilvísunarkerfi þar sem verktakasamningar eru leyfðir er allt að 5-18% lægri eftir því hvort miðað er við hlutfall af vergri landsframleiðslu eða kaupmáttargildi í dollurum (Health at a glance, OECD 2013) en þar sem frjáls tryggingarfélög í Mið-Evrópu standa að málum (OECD og World Bank 2009).

Heildarkostnaður óhefts markaðsrekinnar heilbrigðisþjónustu í BNA er 75-94% hærri en á Norðurlöndum og Mið-Evrópu. Jafnframt er ljóst að heildarkostnaður við einkarekna heilbrigðisþjónustu eins og rekin er í Bandaríkjunum er allt að 90% dýrari en skattafjármögnun heilbrigðisþjónustu á Norðurlöndum.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×