Skoðun

Öflug íslensk verslun – Takk fyrir

Sigurjón Örn Þórsson skrifar
Lengi vel var það til siðs að tala íslenska verslun niður. Slíkt heyrir þó að mestu leyti sögunni til þar sem íslenskir neytendur eru orðnir vel meðvitaðir um þá staðreynd að á flestum sviðum verslunar og þjónustu stenst hún fyllilega samanburð við nágrannalöndin hvað varðar þjónustu, vöruúrval, verðlagningu og gæði. Á þessu eru þó undantekningar sem í langflestum tilvikum má rekja til þess umhverfis hamlandi laga og regluverks sem íslensk verslun hefur þurft að búa við um allt of langt skeið.

Það er því ekki óeðlileg krafa af hálfu verslunarinnar og neytenda þessa lands að gangskör verði gerð að því að afnema úrelt vörugjöld, tolla og kvóta sem hamla eðlilegri þróun og vexti íslenskrar verslunar og koma í veg fyrir auknar kjarabætur til handa íslenskum heimilum.

Við getum gert svo miklu betur og ef stjórnvöld tækju áskorun verslunarinnar og færu í að nútímavæða það regluverk sem nú virkar hamlandi, myndi það ekki aðeins hleypa nýju blóði í íslenskan verslunarrekstur, heldur styrkja hana verulega í sessi, fjölga störfum og þar með auka skatttekjur ríkisins til muna. Það munar um minna!

Íslenskir neytendur vita að með því að versla heima er verið að flytja inn störf í íslenska verslun, störf sem að öðrum kosti skapast utan landsteinanna. Rétt er að benda á að um 23.000 störf eru í kringum íslenska verslun eða um 13,4% af heildarvinnuafli þjóðarinnar. Smásölufyrirtækin veltu 336 milljörðum króna á síðasta ári að viðbættum virðisaukaskatti sem ríkið fær í sinn hlut. Fyrir þær skatttekjur er hægt að reka talsverðan hluta samneyslu þjóðarinnar. Mætti ekki bjóða ríkinu að auka þann hlut með einfaldri endurskipulagningu og afnámi úreltra gjalda og tolla?

Það er samfélagsleg ábyrgð okkar allra, þar með talið stjórnvalda, að beina viðskiptum sem mest að íslenskri verslun. Er ekki réttara að styrkja innviði samfélagsins með tekjum af verslun, að viðhalda og fjölga störfum í greininni og ýta undir og búa til fjölbreyttari framleiðslugreinar sem framleiða íslenskar vörur af ýmsu tagi?

Það er einfaldlega þannig að öflug íslensk verslun er allra hagur. Við höfum heldur betur orðið vör við það í Kringlunni. Og fyrir það segjum við: Takk fyrir.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×