Skoðun

Óeinelti? –Snúum umræðunni við

Hrafnhildur Hreinsdóttir skrifar
Daglega les maður eða heyrir sögur um einelti og hversu alvarlegar afleiðingarnar geta orðið, fyrir börn og fullorðna, sem verða fyrir því og lífsgöngu þeirra. Umræðan snýst að sjálfsögðu öll um hve einelti sé slæmt og börnum er kennt að það megi ekki leggja önnur börn í einelti, jafnvel börn í leikskólum þekkja orðið. Innihald umræðunnar er auðvitað gott og þarflegt, en orðið einelti klingir í eyrum alla daga.

Þar með er ég ekki að segja að orðið einelti sé slæmt. Það er býsna gagnsætt hvað merkingu varðar. Orðið einelti tekur bara allt of mikið pláss í umræðunni um vandann, því það er alltaf á tungu manna og vísar beint í það slæma. Það er meira að segja haldinn eineltisdagur (á maður þá að leggja einhvern í einelti, má spyrja) eða jafnvel eineltisvika í skólum og á vinnustöðum. Allt til að fyrirbyggja eða vekja athygli á vandanum.

Mig langar til þess að hvetja alla sem að þessum málum koma að snúa umræðunni við og minnka það að tala um einelti, heldur tala frekar um hið gagnstæða. Fókusera á góð samskipti, vináttu, virðingu og umburðarlyndi. En þá kemur vandamálið upp því okkur vantar gott orð yfir hugtakið.

Norðurlandaþjóðir nota orðið mobbing yfir einelti og antimobbing sem mótsögn svo ekki getum við gengið í smiðju þeirra. Óeinelti gengur ekki heldur í okkar tungumáli. Einu orðin sem mér detta í hug eru mannúð, góðvild og samkennd en mér finnst þau ekki ná að vera hið gagnstæða við einelti. Ég beini því þess vegna til allra þeirra sem hæfileikana hafa að finna eða smíða nú gott orð yfir þetta hugtak svo við þurfum ekki að nota eins oft hið neikvæða orð, einelti. Beinum athyglinni frekar að góðri hegðum með því að nota rétt orð yfir hana og flytjum þannig áhersluna á það jákvæða.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×