Innlent

Óeðlilegt að blanda saman makríldeilunni og aðildarviðræðunum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Árni Þór Sigurðsson er formaður utanríkismálanefndar.
Árni Þór Sigurðsson er formaður utanríkismálanefndar.
Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, segir takmörk fyrir þeim viðskiptaþvingunum sem ríki Evrópusambandsins geta beitt Íslendinga. EES samningurinn og aðild Íslands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni tryggi það. Hann segir ákvörðun ráðherraráðs Evrópusambandsins í dag um að heimila viðskiptaþvinganir gegn Íslendingum ekki koma á óvart miðað við það sem á undan var gengið.

„Þetta er það sama og við vissum að myndi gerast þegar þingið var búið að samþykkja þessa reglugerð sín megin. Þá vissum við að hún færi fyrir ráðherraráðið og það myndi samþykkja fyrir sitt leyti að það væri hægt að beita þessum reglum," segir Árni Þór í samtali við Vísi. „Hins vegar sýnist mér við fljótan yfirlestur að þar séu ýmsir fyrirvarar í gangi svo sem að það verði að vera í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar og gefa ríkjum kost á andmælarétti og öðru slíku. Þannig að mér sýnist að þetta sé nú ekki að bresta á á morgun eða hinn," segir Árni. Þá eigi alveg eftir að koma á óvart hversu langt menn muni ganga í viðskiptabanninu. Löndunarbann á makríl einum sér yrði innan allra heimilda.

Árni Þór segir að ekki megi blanda saman aðildarviðræðum við Evrópusambandið og deilum vegna meðalgöngu þess í Icesave málinu og makríldeilunni, enda séu samskiptin við Evrópusambandið núna margvísleg. „Við erum náttúrlega með EES samninginn og menn geta þá spurt sig hvort þeir ætli að segja honum upp," segir Árni. Þá bendir hann á að Íslendingar eigi líka í miklum samskiptum við Noreg, sem deili líka við Ísland vegna makrílsins. „Ætla menn þá að hætta þeim samskiptum?" spyr Árni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×