Innlent

Nýtt nafn fyrir betri möguleika á atvinnu

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Patrycja ákvað að breyta eftirnafni sínu til þess að eiga meiri möguleika á því að komast í atvinnuviðtöl.
Patrycja ákvað að breyta eftirnafni sínu til þess að eiga meiri möguleika á því að komast í atvinnuviðtöl. Vísir/Vilhelm
„Ég hélt þetta skipti engu máli en svo fóru fleiri að segja mér frá því að erlenda eftirnafnið gæti haft áhrif á það hvort ég fengi vinnu,“ segir Patrycja Wittstock Einarsdóttir, sem breytti föðurnafni sínu til þess að eiga auðveldara með að fá vinnu.

Patrycja skrifaði pistil inn á síðuna vertunaes.is sem hefur vakið mikla athygli. Þar sagði hún frá því hvernig hún hafði sótt um yfir fjörutíu sumarvinnur en aðeins fengið tvö viðtöl. Í öðru atvinnuviðtalinu sá Patrycja að umsókn hennar var í bunka með umsóknum merktum erlendum nöfnum. Hún fékk ekki starfið en ákvað eftir það að skipta um eftirnafn.

Hitt atvinnuviðtalið gekk betur, hún fékk starfið og atvinnurekandinn tók sérstaklega fram að á vinnustaðnum liðust ekki fordómar. Reynslan af atvinnuviðtalinu sem illa gekk sat í henni.

Anna Wozniczka Fréttablaðið/Stefán
„Þetta kom mér á óvart því ég hef aldrei upplifað fordóma áður,“ segir Patrycja, sem flutti til Íslands frá Póllandi ásamt móður sinni þegar hún var fimm ára.

Mæðgurnar fluttu til fósturföður hennar á Ísafirði þar sem hún bjó þar til hún hafði klárað menntaskóla.

„Á Ísafirði þekkja allir alla og nöfnin skipta ekki máli,“ segir hún. Þegar hún hins vegar fór að sækja um sumarstörf í Reykjavík horfði málið öðruvísi við. „Maður fékk á tilfinninguna að það væri ekki einu sinni kíkt á umsóknina út af nafninu,“ segir Patrycja.

Eftir að Patrycja fór að segja frá þessu, meðal annars í erindi á Jafnréttisdögum, hefur hún fengið mikil viðbrögð. „Það hafa margir sagst vera að lenda í því sama.“

Ania Wozniczka, formaður Samtaka kvenna af erlendum uppruna, segist hafa heyrt mörg dæmi um að fólk telji erlent nafn hindra að það hljóti sömu tækifæri og þeir sem eru með íslenskt nafn.

„Margir standa undir öllum kröfum í umsóknum en fá ekki einu sinni svar. Við könnumst við margar sögur frá fólki sem hefur lent í þessu og velt fyrir sér hvort þetta sé ástæðan en auðvitað er ekkert hægt að fullyrða um það,“ segir Ania. „Ég held það sé mikið af huldum fordómum hér, fólk er kannski ekki að tala illa um innflytjendur en þeir hafa ekki sömu tækifæri.“

Ania segist hafa heyrt dæmi þess að fólk sendi inn atvinnuumsóknir með íslensku eftirnafni til þess að eiga meiri möguleika á að komast í viðtal. Ania bendir á að þetta einskorðist ekki við atvinnumarkaðinn þó það sé líklega mest þar.

„Þetta á líka við um leigumarkaðinn. Stundum meira segja er tekið fram í auglýsingum að útlendingum verði ekki leigt,“ segir Ania Wozniczka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×