Viðskipti innlent

Nýsköpun í lífhagkerfinu kynnt

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Nýsköpun í matvælaiðnaði, þar sem vannýttar auðlindir koma við sögu, er meginþema Arctic Bioeconomy, verkefnis sem Matís leiðir. Verkefnið er hluti af formennskuverkefni Íslands í norrænu ráðherranefndinni.

Matís ásamt þátttakendum verkefnisins hefur nú ýtt rúmlega 30 hugmyndum úr vör og verða þær kynntar í dag á ráðstefnu á Selfossi um lífhagkerfið. Vörurnar eru þróaðar af smáframleiðendum og einstaklingum á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum.

„Við auglýstum eftir þátttakendum í þessum þremur löndum. Aðilar voru oft með vöruhugmyndir og búnir að vinna sig eitthvað áfram en vantaði herslumuninn til að koma vörunum á markað,“ segir Sigrún Elsa Smáradóttir, fagstjóri hjá Matís.

Hún segir þátttakendur hafa fengið ýmiskonar hjálp frá Matís, annaðhvort við framleiðslu, sérfræðiaðstoð eða annað. Alls bárust 78 umsóknir, þar af stærsti hlutinn frá Íslandi en þó nokkuð frá Grænlandi og Færeyjum.

„Það er misjafnt hvort kynntar verða fullunnar vörur til smökkunar eða annað. Við bjóðum til dæmis upp á íslenska bleikju sem hefur fengið fóður unnið úr mjög próteinríkum svepp sem vex á viðarmassa sem fellur til í sögunarverksmiðjum,“ nefnir Sigrún sem dæmi um verkefni sem kynnt verður í dag en segir að ýmissa grasa muni kenna á ráðstefnunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×