Innlent

Ný könnun Stöðvar 2: Ólafur Ragnar 56% - Þóra 34%

Kristján Már Unnarsson skrifar
Ólafur Ragnar Grímsson mælist með afgerandi forystu, eða 56 prósenta fylgi þeirra sem tóku afstöðu, en Þóra Arnórsdóttir með 34 prósent, í nýrri skoðanakönnun Stöðvar 2 og Fréttablaðsins, þar sem fimmtán hundruð manns svöruðu. Saman mælast þau tvö með yfir níutíu prósent fylgis meðal þeirra sem hafa ákveðið sig en aðrir forsetaframbjóðendur samanlagt með innan við tíu prósent. 27,5 prósent segjast óákveðnir.

Þetta er stærsta úrtak í könnun til þessa fyrir komandi forsetakosningar. Hringt var í 2.214 manns í gær og í fyrradag, á miðvikudag og fimmtudag, samkvæmt slembiúrtaki úr þjóðskrá, og náðist í 1.503 kjósendur, sem skiptust jafnt eftir kyni, og hlutfallslega rétt eftir búsetu og aldri.

Spurt var: Hvern myndir þú kjósa til embættis forseta Íslands ef gengið yrði til kosninga nú?

Af 1.503 sögðust 9 ætla að kjósa Andreu, eða 0,6 prósent, Ara Trausta 58 eða 3,9 prósent, Ástþór 9 eða 0,6 prósent, þrír sögðust kjósa Hannes eða 0,2 prósent, Herdísi 16 eða 1,1 prósent, Ólaf Ragnar 563 eða 37,5 prósent og Þóru 341 eða 22,7 prósent.

3,8 prósent sögðust ekki ætla að kjósa eða skila auðu, óákveðnir sögðust 27,5 prósent og 2,3 prósent neituðu að svara.



Tveir af hverjum þremur tóku þannig afstöðu og meðal þeirra mældist Andrea með 0,9 prósent, Ari Trausti með 5,8%, Ástþór með 0,9%, Hannes með 0,3%, Herdís með 1,6%, Ólafur Ragnar með 56,4% og Þóra með 34,1%. Þau tvö mældust þannig með 90,5 prósent en aðrir með 9,5 prósent samanlagt.



Fylgi Ólafs Ragnars mældist áberandi meira meðal karla. 62 prósent karla sögðust kjósa hann en Þóru 27 prósent karla. Aðrir mældust samanlagt með 11 prósent. Meðal kvenna var bilið minna, 50 prósent kvenna sögðust ætla að kjósa Ólaf en Þóru 42 prósent kvenna. Aðrir frambjóðendur með 8 prósent samanlagt.



Sömuleiðis var munur á fylgi eftir búsetu. Þannig mældist Ólafur með 55 prósent á höfuðborgarsvæðinu en Þóra 36 prósent en á landsbyggðinni mældist Ólafur með 60 prósent meðan Þóra mældist með 29 prósent. Fylgi annarra var samtals í kringum tíu prósent.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×