Innlent

Núllið nýtist enn á ný

Birta Björnsdóttir skrifar
Núllið, sem teiknað var af Helga Sigurðssyni arkitekt, var byggt árið 1930 og var nýtt sem almenningssalerni fram til ársins 2006. Síðan gekk rýmið í endurnýjun lífdaga fyrir tilstilli Nýlistasafnsins og fjölbreyttar myndlistarsýningar verið haldnar í rýminu. Og nú hefur verið óskað eftir hugmyndum um hvernig nýta megi þetta sögufræga húsnæði.

„Við erum bara að leita að öllu mögulegu. Nýlistasafnið hefur rekið þetta núna en þau eru nú að fara inn í Marshall-húsið ásamt fleiri aðilum. Rýmið stendur því autt í haust og þar sem fleiri en einn og fleiri en tveir hafa verið að spyrjast fyrir um það ´fannst okkur gegnsæjast að leyfa bara öllum að spreyta sig. Þau sem eiga svo skemmtilegustu hugmyndina fá svo rýmið," segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík.

Það er rýmið sem er vinsta megin við Bankastrætið sé gengið niður það sem um ræðir. Hitt rýmið, sem áður fyrr hýsi karlaklósettin, verður ekki nýtt í bili.

„Það hefur reynst erfitt að koma fyrir flóttaútgöngum og öðru slíku sem verður að vera til staðar í rými af þessu tagi eins og nútímareglur gera ráð fyrir. Stjórnarráðið var svo ekki til í að vera með flóttaleið í átt að sér," segir Dagur.

Í auglýsingunni kemur fram að aðstaðan uppfyllir ekki kröfur um rekstur matsölu.

„Nei, Heilbrigðiseftirlitið hefur væntanlega komið að því að semja þessa setningu," segir Dagur.

Dagur segir að ekki standi til að færa starfsemi húsnæðisins í upprunalega nýtingu.

„Því var lokað fyrir allnokkru síðan. Það laut meðal annars að vinnuvernd, því að þarna var erfitt að koma að viðeigandi starfsmannaaðstöðu og okkur leist heldur ekki á að hafa þarna aflokuð rými án eftirlits. Þetta reyndist vera barn síns tíma með þá notkun, því miður," sagði Dagur.

Frestur til að skila inn hugmyndum af nýtingu rýmisins rennur út þriðjudaginn 7.júní næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×