Innlent

Nubo ekkert heyrt frá íslenskum stjórnvöldum

Kínverjinn Huang Nubo undrast að engin svör hafi ennþá borist frá íslenskum stjórnvöldum um hvort honum verði leyft að fjárfesta í ferðaþjónustu á Íslandi og er þolinmæði hans nú á þrotum.

Þetta var ein stærsta frétt nýliðins árs þegar Nubo heimsótti Norðurland í ágústmánuði til að kaupa jörðina Grímsstaði á Fjöllum, sem átti að verða fyrsti liður í tugmilljarða uppbyggingu ferðaþjónustu hans á Íslandi. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagði hins vegar nei í nóvember við því að heimila jarðakaupin.

Ráðherrar Samfylkingarinnar, bæði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Katrín Júlíusdóttir iðnaðaráðherra, lýstu því þá yfir að annarra leiða yrði leitað til að liðka fyrir fjárfestingum Kínverjans enda kvaðst Nubo áfram áhugasamur um málið. Í því skyni fundaði fulltrúi hans, Halldór Jóhannsson, arkitekt á Akureyri, í byrjun desember með atvinnuveganefnd Alþingis og Íslandsstofu.

Halldór segist síðan ekkert hafa heyrt um málið frá íslenskum stjórnvöldum og kveðst undrast í ljósi yfirlýsinga ráðherra að fá engar tillögur. Hann kveðst reglulega fá fyrirspurnir frá Nubo, síðast í morgun, um hvort eitthvað sé að gerast, og segir að þolinmæði Nubos sé nú á þrotum. Nubo sé hissa á því að fá engin svör frá íslenskum stjórnvöldum meðan stjórnvöld í nágrannaríkjum hefðu frumkvæði að því að bjóða hann velkominn til sín.

Hjá Íslandsstofu fengust þær upplýsingar að málið væri á borði ráðherra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×