Íslenski boltinn

Norskir dómarar fá tíu sinnum hærra kaup en íslenskir

Arnar Björnsson skrifar
Terje Hauge dæmdi leik Liverpool og Atletico Madrid.
Terje Hauge dæmdi leik Liverpool og Atletico Madrid. Vísir/Getty
Fótboltadómarar í Noregi fá nærri því tíu sinnum hærri upphæð fyrir að dæma leik í norsku úrvalsdeildinni en íslenskir kollegar þeirra.  

Í Noregi fær aðaldómarinn 14 þúsund norskar krónur eða 260 þúsund íslenskar en aðstoðardómararnir fá 167 þúsund krónur í sinn hlut fyrir hvern leik. Það er rétt tæplega tíu sinnum meira en íslenskir dómarar fá fyrir leik í Pepsi-deildinni.

Í norska blaðinu Bergens Avisen kemur fram að bestu dómararnir í Noregi dæmi 20-22 leiki á leiktíð sem skilar þeim 5,2 til 5,7 milljónum króna.

Í Pepsi-deildinni  fær dómarinn 28,610 krónur fyrir hvern leik sem hann dæmir en aðstoðardómarinn fær 21 þúsund krónur fyrir dómgæsluna.  

Terje Hauge, sem í mörg ár var einn frægasti dómari Noregs, segir í samtali við blaðið að þegar hann dæmdi fyrsta leik sinn í norsku úrvalsdeildinni 1988 hafi hann fengið 200 norskar krónur fyrir dómgæsluna en sú upphæð svarar til 3700 íslenskra króna.  

Hauge segir í samtali við Bergens Avisen að dómararnir sem dæma flestu leikina í ensku úrvalsdeildinni þéni um 20 milljónir króna á hverri leiktíð fyrir dómgæsluna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×