Skoðun

Norðurslóðir, Ísland og Kína: 30 mánuðum seinna

Egill Þór Níelsson skrifar
Fyrir tveimur og hálfu ári síðan skrifaði undirritaður greinina Norðurslóðir, Ísland og Kína: Efnahagsleg tækifæri og pólitískt mikilvægi, sem lauk með eftirfarandi orðum: „Til að hlúa að framtíðarhagsmunum Íslands er mikilvægt að styrkja tengsl við Grænland og Kína, samhliða því að gera norðurslóðir að mikilvægasta málefni íslenskrar utanríkisstefnu.“ Norðurslóðasamstarf Íslands við bæði Grænland og Kína hefur aukist til muna síðan, enda sameiginlegir hagsmunir landanna á norðurslóðum miklir í báðum tilvikum. Auk þess sem mikilvægi norðurslóða fyrir Ísland bæði heimafyrir og á alþjóðavettvangi verður sífellt meira áberandi. En hvaða skref hafa verið tekin á Íslandi í málefnum norðurslóða, hvernig hefur norðurslóðasamvinnu Íslands við Grænland og Kína þróast undanfarin misseri og hvaða þýðingu hafa þessi mál fyrir okkur Íslendinga?

Ísland á norðurslóðum

Mikil gróska hefur verið í málefnum norðurslóða á Íslandi undanfarin ár þar sem Forseti Íslands hefur verið einn ötulasti talsmaður norðurslóða á alþjóðavísu á 21. öldinni, þverpólitísk samstaða náðist á Alþingi um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða árið 2011 og Utanríkisráðuneytið hefur lagt aukna áherslu á mikilvægi norðurslóðamála svo um munar undanfarin ár. Margt hefur verið gert vel undanfarna tvo áratugi í norðurslóðatengdum málefnum og segja má að vísindamenn voru lengi vel mun framsýnni en viðskiptafólk á Íslandi (líkt og víða annars staðar á norðurslóðum). Bæði Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og Samvinnunefnd um málefni norðurslóða hafa verið starfrækt frá 1998 og voru að mörgu leyti langt á undan sinni samtíð.

Undanfarin ár hefur rannsóknarsamfélagið um málefni norðurslóða eflst mikið m.a. með auku námsframboði á sviðum eins og Heimskautarétt sem kenndur hefur verið við Háskólann á Akureyri frá haustinu 2008 og með tilkomu nýrra samstarfseininga á borð við Rannsóknarsetur um norðurslóðir sem starfar innan Háskóla Íslands frá árinu 2013. Viðskiptalífið hefur fylgt í kjölfarið og í maí 2013 var Norðurslóða-viðskiptaráð sett á laggirnar. Fyrirtæki hér á landi eru misjafnlega langt á veg komin í norðurslóðamálum, sum eru afar framsýn og reka jafnvel nú þegar arðbærar samstæður í norðurslóðatengdum iðnaði og þjónustu. Árið 2013 hóf jafnframt Norðurslóðanet Íslands starfsemi sína sem samstarfsvettvangur stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka á Íslandi sem vinna að málefnum norðurslóða. Stofnun þess undirstrikar mikilvægi þess að gott samstarf sé á milli stjórnmála, atvinnulífsins og rannsóknarsamfélagsins um málefni norðurslóða Íslendingum öllum til hagsbóta. Fjölmörg tækifæri eru framundan á norðurslóðum, bæði í samvinnu við nágrannalönd okkar og fjarlægari ríki en mikilvægast er að við sjálf látum tækifærin ekki sigla framhjá okkur.

Grænland og Ísland

Einn mikilvægasti vettvangur Íslands til að auka samstarf sitt við Grænland er í gegnum Vestnorræna ráðið; þingamannasamstarf Íslands, Grænlands og Færeyja sem sett var á laggirnar fyrir tæpum þremur áratugum. Undanfarin ár hefur ráðið lagt aukna áherslu á málefni norðurslóða og í fyrra kom fram áskorun frá Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins til Alþingis um að styrkja samstarf við Færeyjar og Grænland um málefni norðurslóða. Á ársfundi Vestnorræna ráðsins á Íslandi í september sl. voru utanríkisráðherrar allra þriggja landanna saman komnir í fyrsta skipti að frumkvæði ráðsins og voru norðurslóðamál einna efst á baugi á fundi þeirra. Ráðið skoðar nú möguleikann á því að þróa sameiginlega Vestnorræna norðurslóðastefnu og verður það viðfangsefni árlegrar þemaráðstefna ráðsins í janúar á Aasiaat, Grænlandi.

Mikinn gagnkvæman samstarfsvilja er einnig að finna í tvíhliða samskiptum Íslands og Grænlands. Samstarfið hefur m.a. verið eflt með stofnun Grænlensk-íslenska viðskiptaráðsins 2012 og opnun Ræðisskrifstofu Íslands í Nuuk í nóvember 2013. Við það tækifæri var undirrituð viljayfirlýsing á milli grænlensku heimastjórnarinnar og ríkisstjórnar Íslands um aukið samstarf t.a.m. um málefni norðurslóða þegar kemur að nýtingu auðlinda, samgöngumál og ferðaþjónustu. Lögð er áhersla á að tækifærin gefi heimamönnum efnahagslegan ávinning samhliða því að hlúð sé að viðkvæmu vistkerfi svæðisins.

Á fundi Grænlensk-íslenska viðskiptaráðsins „Gagnkvæm tækifæri: Grænland-Ísland“ sem haldinn var í janúar sl. í Reykjavík sagði Vittus Qujaukitsoq, fjármála- og innanríkisráðherra Grænlands, að hann teldi Ísland geta orðið helsta samstarfsaðila Grænlands í framtíðinni. Það eru stór orð miðað við þau gríðarlegu umfangsmiklu verkefni sem bíða Grænlands og reynsla Íslands í alþjóðlegum samskiptum og viðskiptum getur reynst mikilvægur liður í samstarfi landanna, þar má bæði læra af mistökum og því sem vel hefur tiltekist hérlendis. Lykilatriði er að Íslendingar vinni með Grænlendingum á jafnræðisgrundvelli við að nýta sameiginleg tækifæri t.a.m. á sviði sjávarútvegs, ferðaþjónustu, orku, rannsókna, flutninga og alþjóðamarkaðsstarfs. Á Alþingi liggur nú fyrir ítarleg þingsályktun um að efla samstarf Íslands við Grænland og ljóst er að miklir möguleikar til aukins samstarfs báðum aðilum til góðs.

Kína og Ísland

Norðurslóðasamstarf Íslands og Kína jókst til muna eftir að ríkisstjórnir landanna undirrituðu rammasamning um málefni norðurslóða, auk viljayfirlýsingar um samstarf á sviði hafs- og heimskautavísinda og tækni, í apríl 2012. Í kjölfarið heimsótti Snædrekinn, rannsóknarísbrjótur Kínverja, Ísland fjórum mánuðum seinna á leiðangri sínum um Norður-Íshafið. Tveir Íslendingar tóku þátt í leiðangrinum sjálfum. Undirritaður var um borð á leiðinni frá Kína til Íslands og vann þar verkefni í tengslum við norðurslóðasiglingar, auk þess að taka þátt í undirbúningi heimsóknarinnar til Íslands. Á leiðinni frá Íslandi til Kína nánst þvert yfir pólinn rannsakaði Ingibjörg Jónsdóttir, dósent við Háskóla Íslands, hörfun og ástand hafíss.

Á meðan heimsókn Snædrekans til Íslands stóð var skipið gert aðgengilegt almenningi og haldin voru málþing á Akureyri og í Reykjavík, þar sem m.a. voru undirritaðar tvær aðrar viljayfirlýsingar byggðar á rammasamningnum um málefni norðurslóða. Annars vegar á milli Rannsóknarmiðstöðvar Íslands (RANNÍS) og Heimskautastofnunar Kína um aukið norðurslóðasamstarf á sviði félagsvísinda m.a. á norrænum vettvangi og hins vegar á milli Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands og Heimskautastofnunar Kína um sameiginlega norðurljósarannsóknarstöð. Báðar viljayfirlýsingarnar frá heimsókn Snædrekans í ágúst 2012 hafa nú þegar borið ávöxt. Í desember 2013 var sett á laggirnar Kínversk-norræna norðurslóðamiðstöðin í Sjanghæ en stofnaðilar hennar voru sex norrænar og fjórar kínverskar stofnanir sem eru leiðandi í málefnum norðurslóða í sínu landi. Samstarf RANNÍS og Heimskautastofnunar Kína hefur því gegnt lykilhlutverki í að auka norðurslóðasamstarf ekki bara á milli Kína og Íslands, heldur Kína og Norðurlandanna allra.

Því til marks má nefna að önnur kínverska-norræna norðurslóðaráðstefnan, „Þar sem norður og austur mætast“, var  haldin á Akureyri 2.-5. júní sl. þar sem tæplega 40 sérfræðingar í málefnum norðurslóða frá Kína og Norðurlöndunum fjölluðu um stjórnarfar, efnahagslif og samvinnu sem tengist hafinu. Ráðstefnan var skipulögð af RANNÍS og Kínversk-norrænu norðurslóðamiðstöðinni með styrk frá Norrænu ráðherranefndinni og NordForsk. Aðrir styrktaraðilar voru Utanríkisráðuneytið, Mennta- og menningarmálaráðuneytið, Climate Research Fund, Icelandair Group, Samskip og Eimskip. Að undirbúningi komu Akureyrarbær, Háskólinn á Akureyri, Norðurslóðagátt, Norðurslóðanet Íslands, Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar. Á fyrsta degi ráðstefnunnar fór fram móttaka fyrir alla þátttakendurna við Kárhól í Reykjadal þar sem tekin var fyrsta skóflustungan að nýrri norðurljósarannsóknastöð sem fyrirhugað er að rísi þar á næstu misserum. Áhugasamir geta kynnt sér kínversk-norrænt norðurslóðasamstarf betur á Hringborði norðurslóða sem fram fer í Hörpu næstkomandi helgi, og verður þar á meðal fjölmargra umfjöllunarefna samkomunnar.

Mikil gróska hefur jafnframt verið í efnahagslegu samstarfi Íslands og Kína, sem endurspeglast líkast til best í fríverslunarsamningi ríkjanna er tók gildi 1. júlí sl. Samningurinn opnar gríðarleg tækifæri fyrir íslenska útflytjendur samhliða því að vera til þess fallinn að geta vænkað hag íslenskra neytenda með lægra vöruverði. Auk þess hafa seðlabankar ríkjanna endurnýjað gjaldmiðlaskiptasamning frá 2010 sín á milli með það að markmiði að efla tvíhliða viðskipti landanna og styðja við beina fjárfestingu, ásamt því að efla fjármálaleg tengsl. Fjárhæð nýja gjaldmiðlasamningsins frá 2013 er 66 milljarðar króna og gildir í þrjú ár með möguleika á að vera endurnýjaður að þeim tíma liðnum.

Kína, líkt og önnur lönd í Asíu, er landfræðilega ekki hluti af norðurslóðum og getur því takmarkað tekið þátt í vísindastarfi, viðskiptum eða komið að pólitískum ákvörðunum á norðurslóðum nema í samstarfi við aðila á svæðinu. Íslendingar hafa notið góðs af samstarfi við framúrskarandi vísindastofnanir stórveldis og íslensk fyrirtæki líta til Kína í auknu mæli í leit að fjármögnun fyrir kostnaðarsöm verkefni, sem og markað fyrir íslenskar vörur og þjónustu. Reynsla fengin úr samstarfi Íslands og Kína getur í framhaldi reynst góður grunnur fyrir tvíhliða samskipti við önnur Asíuríki s.s. Japan, Kóreu og Singapúr út frá sambærilegum vísinda- og viðskiptalegum hvötum Íslendingum og samstarfsaðilum þeirra til hagsbóta.

Nýtum tækifærin

Umfjöllunin hér að ofan um norðurslóðatengt samstarf Íslands við bæði Grænland og Kína er á engan hátt tæmandi en gefur þó ákveðna mynd af framgangi þess á undanförnum misserum. Það að Ísland hafi aukið samskipti sín við bæði Grænland og Kína útilokar alls ekki norðurslóðasamstarf við aðra aðila, þvert á móti gerir það Ísland áhugaverðara fyrir vikið gagnvart sínum hefðbundnu bandamönnum og viðskiptaþjóðum í Evrópu og Norður-Ameríku. Mikilvægi Grænlands og Kína í alþjóðlegu tilliti á einungis eftir að aukast og Ísland getur spilað mikilvægt hlutverk í heimi þar sem tækifærin eru að auknu mæli að finna til norðurs og austurs.

Ljóst er að mörg tækifæri bíða okkar og það er ábyrgðahlutur okkar sem erum á svæðinu að hlutast til um hvort og hvernig þau verða hagnýtt. Vænlegast er að skapa íslenskum norðurslóðaaðilum hvetjandi skilyrði þar sem frumkvæði til verðmætasköpunnar er ekki hindrað á meðan fjölmargir áhættuþættir eru viðurkenndir og varúðar gætt í nýtingu tækifæranna. Hætt er við að tækifærin sigli annars framhjá okkur og til marks um hve skjótt veður getur skipast í lofti er gott að líta til undanfarinna ára. Nú árið 2014 er jafn langur tími liðinn frá því að bankakerfið hrundi árið 2008 og frá því að Landsbankinn og Búnaðarbankinn voru einkavæddir árið 2002 og þangað til þeir hrundu. Sex ár eru því langur tími í tilliti til þeirra miklu breytinga sem geta átt sér stað á þeim. Það er okkar að sjá til þess að við vöknum ekki við það árið 2020 að Ísland hafi misst af þeim tækifærum sem við okkur blasa nú heldur séu þau nýtt af kostgæfni jafnframt því sem nauðsynlegrar varfærni sé gætt.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×