Fótbolti

Norðmenn yfir í 50 mínútur í Róm en það var ekki nóg | Fara í umspilið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ítalir fagna marki í kvöld.
Ítalir fagna marki í kvöld. Vísir/Getty
Norðmenn þurfa að fara í umspil um sæti á Evrópumótinu eins og Svíar og Danir en það var ljóst eftir Norðmenn töpuðu fyrir Ítölum á sama tíma Króatar unnu sigur á Möltu.

Ítalir unnu 2-1 sigur á Norðmönnum á Ólympíuleikvanginum í Róm og tryggðu sér með því sigur í H-riðlinum.

Ítalir og Króatar fara beint á EM en Norðmenn fengu stigi minna en Króatíu og urðu að sætta sig við þriðja sætið.

Ítalirnir voru miklu betri í leiknum og sigurinn var því sanngjarn. Norðmenn komust yfir gegn gangi leiksins en það var eina marktilraun liðsins í fyrri hálfleiknum.

Graziano Pelle skoraði sigurmark Ítala á 82. mínútu leiksins en hann var þá búinn að fá nokkur færi í leiknum til þess að skora. Alessandro Florenzi, sem skoraði fyrra markið lagði upp markið fyrir Pelle.

Alexander Tettey kom Norðmönnum yfir á 23. mínútu leiksins og þannig var staðan í 50 mínútur. Norðmenn hefðu ekki aðeins tryggt sér á EM með þeim úrslitum því úrslitin hefðu einnig dugað til sigurs í riðlinum.

Alessandro Florenzi jafnaði metin á 73. mínútu og það þýddi að Norðmenn fóru úr fyrsta sæti niður í þriðja sætið. Norska liðið þurfti mark og mörk eftir að Ítalir komust yfir en það var ekki að sjá á leik liðsins.

Ítalirnir voru með öll völd á vellinum og voru líklegri að skora þriðja markið sitt en að Norðmenn settu einhverja spennu í riðlinum á lokamínútunum.

Noregur er því ein af þremur Norðurlandaþjóðum í umspilinu en Ísland er eina Norðurlandaþjóðin sem er komin inn á Evrópumótið í Frakklandi næsta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×