Innlent

Norðmenn langfremstir í rafbílavæðingu

Stefán Rafn skrifar
Forsetinn á rafbíl. Á Íslandi eru um 400 skráðir rafbílar.
Forsetinn á rafbíl. Á Íslandi eru um 400 skráðir rafbílar. Fréttablaðið/Haraldur Jónasson
Eftirlitsstofnun EFTA hefur gefið ívilnunaráætlun norskra stjórnvalda grænt ljós um niðurfellingu virðisaukaskatts á rafbíla.

Í rökstuðningi eftirlitsstofnunarinnar kemur fram að framlag Noregs til baráttunnar gegn auknum útblæstri gróðurhúsalofttegunda sé til fyrirmyndar og skattalöggjöfin vel til þess fallin að bæta enn betur um. Fjöldi nýskráðra rafbíla í Noregi er hlutfallslega mestur í heiminum eða um 12 prósent en til samanburðar er það hlutfall 0,3 prósent í Evrópusambandinu.

Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, tekur undir það. „Norðmenn eru langfremstir í rafbílavæðingu bílaflotans. Þar eru langflestir rafbílar á mann og fleiri ívilnanir en annars staðar í heiminum.“

Þó svo að Norðmenn standi sig vel er löggjöf á Íslandi mjög góð hvað varðar hvata til fjárfestingar á rafbílum. Á Íslandi er ekki rukkaður virðisaukaskattur á rafbíla né vörugjöld. Þá greiða notendur heldur engin bifreiðagjöld né stöðumælagjöld. „Á Íslandi eru um 400 skráðir rafbílar sem kann að hljóma lítið en við verðum að hafa í huga að þetta er tiltölulega nýtt fyrirbæri hér á landi,“ segir Özur en hann bætir við að sala á rafbílum sé á uppleið enda séu þeir orðnir samkeppnishæfari en áður.

Virðisaukaskattur og vörugjöld á rafbíla voru felld niður á síðasta kjörtímabili en lög um niðurfellingu voru framlengd í desember í fyrra og munu gilda til eins árs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×