Innlent

Nokkrir yfirheyrðir vegna Fellsmúlamálsins

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá Fellsmúla.
Frá Fellsmúla. Vísir/Eyþór
Nokkrir voru yfirheyrðir yfir helgina og í dag vegna Fellsmúlamálsins svokallaða. Málið varðar ásakanir um frelsissviptingu. Hefur karlmaður haldið því fram að honum hafi verið haldið gegn vilja í íbúð í Fellsmúla í tvo sólarhringa. Hann tilkynnti málið til lögreglu eftir að hafa klifrað á milli svala á fjórðu hæð í fjölbýlishúsi. Hann komst inn á næsta stigagang þar sem honum hleypt inn í íbúð til að láta vita af sér.

Málið var tilkynnt til lögreglu síðastliðinn fimmtudag en tveir karlmenn voru handteknir við Fellsmúla. Maðurinn sem tilkynnti málið til lögreglu var fluttur á sjúkrahús með minniháttar áverka.

Daginn eftir var mönnunum tveimur sleppt úr haldi lögreglu en rannsókn málsins leiddi í ljós að aðkoma þeirra að málinu var lítil eða engin, eins og það var orðað.

Lögreglan sagði í samtali við fjölmiðla að hún leitaði að pari sem er búsett í íbúðinni sem maðurinn segist hafa verið haldið í. Um var að ræða konu og karl á þrítugsaldri sem bæði settu sig í samband við lögreglu á föstudeginum vegna málsins og hafa nú verið yfirheyrð.

Enginn hefur verið handtekinn vegna rannsóknar málsins frá því á fimmtudag en yfir helgina og í dag voru vitni og aðilar sem vitað er að tengjast málinu yfirheyrð. Lögreglan segir rannsókn málsins enn í fullum gangi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×