Skoðun

Náttúrulegur forseti?

Davíð Stefánsson skrifar
Eftir 20 ár af Ólafi Ragnari Grímssyni gefst okkur nú tækifæri til að móta hið sérstaka forsetaembætti landsins. Í dag er ósköp venjulegur vinnudagur eftir kjördag – framtíðin er komin og það er ekki eftir neinu að bíða.

Í aðdraganda þessara kosninga var ég einn margra sem gagnrýndu Guðna Th. Jóhannesson fyrir skort á afstöðu, ekki síst í málefnum umhverfisins og hálendisins. Ég saknaði þess að heyra hann tala upp þennan mikilvæga málaflokk og lýsa yfir skýrri afstöðu sinni.

Nú vil ég breyta þessari gagnrýni í hvatningu og brýningu.

Ég trúi því nefnilega að nýi forsetinn okkar skilji vel mikilvægi umhverfisverndarmála, bæði hér heima og í hnattrænu samhengi. Ég trúi því að hann heyri vel í þeim 26.037 kjósendum sem kusu Andra Snæ, ekki síst vegna ástríðu hans í náttúruvernd.

Góðlátlegt mikilmennskubrjálæði?

Kannski er það til marks um góðlátlegt mikilmennskubrjálæði af minni hálfu að ætla að segja forseta lýðveldisins fyrir verkum. Ég ætla samt að láta vaða með þessari einföldu áskorun til Guðna:

Kæri Guðni. Svaraðu kallinu frá umhverfinu. Taktu náttúruna til þín. Vertu málsvari hennar fyrir okkar hönd. Gerðu það strax og gerðu það með afgerandi hætti. Sýndu unga fólkinu okkar hvernig það er hluti af sjálfsmynd Íslendinga að vernda náttúru landsins. Segðu okkur hvort þú styður þjóðgarð á hálendinu og segðu okkur hvernig þú munt berjast fyrir hönd náttúrunnar næstu fjögur árin.

Til hamingju með kjörið, Guðni, og farnist þér sem allra best. En svar óskast engu að síður – ríflega 26 þúsund kjósendur bíða spenntir eftir þínum náttúruverndaráherslum.

Það er ekki eftir neinu að bíða.












Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×