Innlent

Nafnbirting vændiskaupenda eina fælingin sem dugar

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Álfheiður Ingadóttir, fyrrverandi þingmaður Vinstri grænna, segir eðlilegt að nöfn manna sem ákærðir eru fyrir vændiskaup séu birt. Það sé helsti fælingarmáttur lagaákvæðanna sem gera kaup á vændi ólögleg, mun sterkari fælingarmáttur en nokkurn tímann sektir eða fanglesi.

„Það eru þó að mínu viti góð tíðindi að þessi lög séu notuð og virt af lögreglunni og ákæruvaldinu, eins og sést á þessum ákærum. Ekki síst í ljósi málsins sem kom upp um daginn þar sem stúlka var ákærð fyrir að „svíkja“ peninga af vændiskaupanda þegar hún uppfyllti ekki sínar skyldur.“

Álfheiður segist telja að það sé almenn sátt um það í samfélaginu að við viljum ekki hafa þessa starfsemi hér og fælingamáttur nafnbirtingar hjá sakborningum sé ómetanlegur.

„Lögin ná ekki markmiði sínu, sem er að koma í veg fyrir vændi, nema menn séu nafngreindir. Það er það eina sem dugar,“ segir Álfheiður.

Vísir greindi frá því í dag að mál gegn tíu kaupendum vændis séu á dagskrá Héraðsdóms Reykjaness á miðvikudaginn í næstu viku. Nöfn sakborninganna eru ekki birt á dagskránni, þar kemur aðeins fram að hvert kynferðisbrotið á fætur öðru á hendur einstaklingum sem allir eru kallaðir „A“ verði þingfest.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×