Fótbolti

Myndband frá fjórtán marka metleiknum hjá KR og Feyenoord fyrir 47 árum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Feyenoord vann Evrópukeppni meistaraliða þetta tímabil.
Feyenoord vann Evrópukeppni meistaraliða þetta tímabil. Mynd/Samsett
KR og hollenska liðið Feyenoord eiga enn saman markið yfir markamesta leikinn í sögu Evrópukeppni meistaraliða.

Fjórtán mörk voru skoruð í leik Feyenoord og KR í 32 liða úrslitum Evrópukeppni meistaraliða 1969-1970 eins og fram kom á Vísi fyrr í dag.

Metið var í smá hættu í gærkvöldi þegar Borussia Dortmund vann 8-4 sigur á Legia Varsjá í fimmtu umferð riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

Staðan var orðin 5-2 eftir aðeins 32 mínútur og því var fljótlega ljóst að met KR-inga var í hættu. Það fór svo að met Vesturbæinga lifir áfram því mörkin urðu „bara“ tólf.

Leikurinn frá 1969 var til umræðu í hollenskum sjónvarpsþætti fyrir tuttugu árum og þar voru sýnd öll mörkin fjórtán eins og sést í myndbandinu hér fyrir neðan.

Í myndbandinu sést Baldvin Baldvinsson skora laglegt skallamark og Halldór Björnsson bætti síðan öðru marki við tíu mínútum síðar. Það var ekki rétt í íslenskum fjölmiðlum á þeim tíma að Baldvin hafi skorað bæði mörkin. Þetta myndband sannar það.

Sigursælir þjálfarar stýrðu liðunum í þessum leik. Óli B. Jónsson þjálfaði KR-liðið en hann vann Íslandsmeistaratitilinn níu sinnum sem þjálfari.

Austurríkismaðurinn Ernst Happel þjálfaði lið Feyenoord en hann gerði liðið að Evrópumeisturum meistaraliða þetta tímabil. Þrettán árum síðan endurtók hann leikinn með þýska liðinu Hamburger SV og varð þá fyrsti þjálfarinn sem vinnur Evrópukeppni meistaraliða með tveimur félögum.

Það er ennfremur hægt að skoða leikskýrsluna frá leiknum með því að smella hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×