Enski boltinn

Mourinho um Luke Shaw: Verður að leggja meira á sig og læra af Mkhitaryan

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Luke Shaw er úti í kuldanum.
Luke Shaw er úti í kuldanum. vísir/getty
Luke Shaw, vinstri bakvörður Manchester United, þarf að leggja meira á sig og mögulega læra af Armenanum Henrikh Mkhitaryan ætli hann að vinna sér aftur inn byrjunarliðssæti í liði José Mourinho að sögn portúgalska knattspyrnustjórans.

Shaw hefur ekki átt upp á pallborðið hjá Mourinho og er ekki einu sinni í leikmannahópi Manchester United sem mætir Saint-Étienne í kvöld í seinni leik liðanna í 32 liða úrslitum Evrópudeildarinnar.

Hann hefur aðeins komið við sögu í fjórtán leikjum á tímabilinu en Mourinho var spurður út í stöðu hans á blaðamannafundi í Frakklandi í gær. Shaw fær ekkert án þess að vinna fyrir því hjá Portúgalanum.

„Luke varð eftir í Manchester því ég er með Daley Blind, Marcos Rojo og Matteo Darmian sem eru allir að spila eins og ég vil að bakverðir spili. Luke þarf að bíða eftir sínu tækifæri og leggja meira á sig því það fæst ekkert frítt hjá mér,“ segir Mourinho.

„Þegar leikmenn fá eitthvað hjá mér er það rándýrt en ekki ókeypis. Leikmennirnir þurfa að leggja mikið á sig á hverjum degi þannig Luke verður bara að bíða. Eins og staðan er núna þá eru aðrir menn á undan honum í röðinni.“

Armenski miðjumaðurinn Henrikh Mkhitaryan var í svipaðri stöðu og Luke Shaw í byrjun leiktíðar en hann er búinn að vinna sér inn sæti í United-liðinu og hefur verið að heilla með frammistöðu sinni.

„Luke hefur margt gott en svo er annað að sýna það sem menn hafa inni á vellinum. Hann þarf bara að halda áfram að leggja meira á sig eins og Mkhitaryan gerði í langan tíma,“ segir José Mourinho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×