Enski boltinn

Mourinho kærður fyrir ummæli sín

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho á hliðarlínunni í gærkvöldi.
Jose Mourinho á hliðarlínunni í gærkvöldi. Vísir/Getty
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, sleppur ekki við kæru hjá aganefnd enska knattspyrnusambandsins eftir orð sín á blaðamannafundi fyrir leik Manchester United og Liverpool á dögunum.

Enska knattspyrnusambandið tilkynnti það í morgun að Mourinho hafi verið ákærður og að hann hafi til næsta mánudags til þess að svara fyrir þessi orð sín og segja sína hlið á málinu.

Jose Mourinho talaði um það að það væri erfitt fyrir dómarann Anthony Taylor að standa sig vel í leiknum þar sem hann er búsettur í Manchester. „Einhver er viljandi að setja slíka pressu á hann, “ sagði Mourinho meðal annars.

Orð Mourinho þóttu ósmekkleg og komu óorði á íþróttina samkvæmt yfirlýsingu frá enska knattspyrnusambandinu.  

Það þótti strax ljóst að Jose Mourinho hafi þarna farið yfir strikið í „sálfræðihernaði“ sínum í aðdraganda leiksins á móti erkióvinum Manchester United.

Leikurinn endaði með markalausu jafntefli og báðir knattspyrnustjórarnir hrósuðu Anthony Taylor dómara fyrir frammistöðuna.

Jose Mourinho gæti bæði fengið leikbann og eða sekt fyrir ummæli sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×