Enski boltinn

Mourinho: Er með tvo af þremum bestu markvörðum heims

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Mourinho hræðist ekki stórar ákvarðanir
Mourinho hræðist ekki stórar ákvarðanir vísir/getty
Jose Mourinho knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarliðsins Chelsea segir að liðið muni ekki standa í vegi fyrir markverðinum Petr Cech vilji Tékkinn stóri fara frá félaginu.

Mourinho gerði Belgann Thibaut Courtois að aðal markverði Chelsea nú í upphafi leiktíðar og er Cech að vonum ekki sáttur við stöðuna enda einn besti markvörður heims.

„Það er ákveðin röð innan félagsins. Efstur er eigandinn, svo er það stjórnin og þar á eftir kem ég. Petr á skilið að sitja niður með honum og hlusta á hann,“ sagði Mourinho.

„Hann á allt gott skilið frá þessu félagi en þetta augnablik er ekki enn komið,“ sagði portúgalski stjórinn um það hvort Cech sé á leið frá félaginu.

Mourinho hefur ekki útskýrt fyrir Cech af hverju hann missti sæti sitt í liðnu.

„Ef ég tala við hann þarf ég að tala við einhvern annan á morgun og svo annan og annan. Þetta hef ég aldrei gert. Ég þarf ekki að tala við leikmenn útaf ákvörðunum mínum.

„Fyrir mér er röðin svona; félagið, liðið og svo leikmennirnir. Félagið er ekki undir minni stjórn, liðið er það. Ég vil að leikmenn sjái að allt sem ég geri er að hugsa um liðið.

Ég vil ekki þurfa að réttlæta allt sem ég geri fyrir leikmönnunum. Þeir vita hvar skrifstofa mín er. Ef þeir þurfa útskýringu þá er alltaf opið inn til mín. Petr kom aldrei til mín,“ sagði Mourinho sem útilokar ekki að Petr Cech muni leika eitthvað hlutverk í liðinu veri hann áfram hjá félaginu.

„Petr þarf að leika. Ég sé ekkert á móti því að Petr leiki, sama hver leikurinn er, það skiptir ekki máli á móti hverjum við leikum.

„Ég hef fulla trú á honum. Ef ég ákveð að það þurfi að breyta þegar leikirnir hlaðast upp þá er þetta líklega auðveldasta staðan til að gera það. Við erum með tvo af þremur bestu markvörðum heims,“ sagði Mourinho

Cech hefur meðal annars verið orðaður við franska stórliðið PSG. Cech gekk til liðs við Chelsea sumarið 2004 frá franska liðinu Rennes og hefur leikið tæplega 450 leiki fyrir félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×