Enski boltinn

Monk: Ætti að skammast sín

Anton Ingi Leifsson skrifar
Monk á hliðarlínunni.
Monk á hliðarlínunni. Vísir/Getty
Gary Monk, stjóri Swansea, var skiljanlega hundóánægður með dómarann Michael Oliver í leik liðsins gegn Stoke í dag. Oliver dæmdi víti á Swansea, en um dýfu var að ræða.

„Að fara héðan með ekkert stig er vonbrigði. Við fengum frábær tækifæri, en því miður náðum við ekki að skora fleiri mörk," voru fyrstu viðbrögð Monk í leikslok.

„Vítið sem við fengum var klárt víti. Ryan Shawcross heldur um Bony sem endar í jörðinni. Seinna vítið er afleit ákvörðun. Það versta við þetta er að það eru margar ákvarðanir á þessu tímabili sem eru ekki að falla með okkur."

„Ég leit strax á bekkinn hjá Stoke og þeir trúðu þessu ekki einu sinni. Það segir allt sem segja þarf. Þetta var klár dýfa og leikmaðurinn svindlaði og dómarinn svindlaði á okkur. Þetta kom líka á mikilvægum tíma. Við hefðum farið með 1-0 inn í hálfleikinn og þetta hefði verið öðruvísi leikur," sagði hundfúll Monk og var hvergi nærri hættur.

„Leikmaðurinn ætti að skammast sín. Ég myndi ekki vilja fara heim til fjölskyldunnar og láta sjá mig - þannig er mitt líf. Fyrir mér er þetta skömm að sjá þetta og honum ætti að vera refsað fyrir þetta."

„Þetta var ein af augljósustu dýfum sem ég hef séð. Ef leikmaður minn hefði gert þetta, hefði hann ekki spilað næsta leik. Þessu verður að útrýma."

„Dómarinn var eini á vellinum sem fannst þetta vera víti. Allir á vellinum voru hissa. Ég hef sent þetta atvik inn til enska knattspyrnusambandsins, en engin svör fengið frá Mike Riley (formaður dómaranefndarinnar)," sagði brjálaður Monk í leikslok.

Hughes hugsi.Vísir/Getty
Kollegi hans hjá Stoke Mark Hughes, var ekki alveg á sama máli varðandi vítaspyrnurnar tvær.

„Ryan Shawcross hefur verið uppmálaður í fjölmiðlum að hann sé alltaf að brjóta á sér inn í vítateignum sem er ekki rétt. Það eru allir að halda í hvorn annan í hornum. Wilfried Bony er stór strákur og hann fór auðveldlega niður í mínum augum," sagði Hughes og aðspurður um seinni vítaspyrnudóminn sagði hann:

„Victor Moses kom á hraða sínum inn í teiginn, Angel Rangel kom og hindraði hann. Ég heyrði að Monk talaði um að minn leikmaður væri að svindla, sem er óafsakanlegt í mínum augum."

„Auðvitað er hann æstur og við þurfum að koma í viðtöl 20 mínútum fyrir leik. Stundum þarftu bara að bíta í tunguna, en það kemur kannski með reynslunni," sagði Hughes að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×