Innlent

Mögulega einhverjir borgarbúar með fullar sorpgeymslur fyrir jól

Gissur Sigurðsson skrifar
"Við erum á mannbroddum og reynum að komast yfir þó það sé hált,“ segir  Guðmundur B. Friðriksson skrifstofustjóri umhverfisgæða hjá Reykjavíkurborg.
"Við erum á mannbroddum og reynum að komast yfir þó það sé hált,“ segir Guðmundur B. Friðriksson skrifstofustjóri umhverfisgæða hjá Reykjavíkurborg. Vísir/GVA
Hálka, ófærð, óvenju mikið magn og bilanir í tækjum valda því að sorp er sumstaðar farið að hlaðast upp í borginni, meira en venjulega. Lítið má útaf bera svo ekki skapist ófremdarástand.  

„Sorpið er náttúrulega mikið meira fyrir jólin og yfir hátíðarnar. Það kann því að safnast upp í sorpgeymslum. Við bætum við hirðidögum á þessum tíma. Vorum að vinna síðastliðinn laugardag og reynum að losa sem allra mest fyrir jólin,“ segir  Guðmundur B. Friðriksson skrifstofustjóri umhverfisgæða hjá Reykjavíkurborg.

Sorpgeymslur eru yfirleitt í kjöllurum fjölbýlishúsa og því um tröppur að fara með sorpílátin. Að sögn sorphreinsimanna vantar mikið upp á að húseigendur sinni þessu, og það eitt valdi töfum. Þá sé færðin þannig að tafir hafi orðið á sorphirðu auk þess sem bílar bili enda reyni mikið á þá á þessum árstíma.

Guðmundur segir vissulega erfiðara að fara yfir í hálku svo ekki sé talað um hálar kjallaratröppur.

„Við erum á mannbroddum og reynum að komast yfir þó það sé hált. En svo eru sorpgeymslur víða lokaðar því það er klaki fyrir hurðunum. Þær opnast út og ekki hægt að opna þær,“ segir Guðmundur. Vonandi takist að tæma allar sorpgeymslur fyrir jól.

„Við reynum að losa sem allra mest og minnka magnið í sorpgeymslum borgarbúa. Hugsanlega verða einhverjir staðir sem við náum ekki að losa fyrir jól.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×