Fótbolti

Misnotkun fótboltamanna á verkjalyfjum mikið áhyggjuefni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Verkjalyf eru vandamál í fótboltanum segir læknirinn.
Verkjalyf eru vandamál í fótboltanum segir læknirinn. vísir/getty
Misnotkun fótboltamanna á löglegum verkjalyfjum er mikið áhyggjuefni en hún getur mögulega dregið þá til dauða. Þetta segir Jiri Dvorak, fyrrverandi yfirlæknir Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA. BBC greinir frá.

Ríflega helmingur allra fótboltamanna sem kepptu á síðustu þremur heimsmeistaramótum taka verkjalyf eins og íbúprófen reglulega. „Þetta er hættuleg þróun, sérstaklega á meðal unglinga,“ segir Dvorak.

„Þetta er að verða hluti af leiknum en er algjörlega rangt. Fyrir mér er þetta einfaldlega lyfjamisnotkun. Þess vegna nota ég orðið áhyggjuefni.“

Leikmannasamtökin á Englandi hafa fullyrt að þetta sé ekki vandamál innan enska boltans en Danny Mills, fyrrverandi varnarmaður enska landsliðsins, segist hafa séð ýmislegt á sínum ferli.

„Ég hef verið í mörgum búningsklefum þar sem leikmenn eru neyddir til að spila undir áhrifum verkjalyfja,“ segir hann og bætir við að á meðal fremstu fótboltamanna heims þykir þetta ekkert mál.

„Þetta er út um allt í fótboltanum. Þannig hefur það verið og þannig verður það áfram. Sem leikmaður spyr maður alltaf hvort þetta sé löglegt og ef þetta er í lagi þá notar maður lyfin ef þau hjálpa manni að að komast í gegnum leiki. Maður tekur bara það sem er í boði svo lengi sem það er löglegt,“ segir Danny Mills.

Fréttaskýringu BBC um málið má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×