Skoðun

Mismunandi valkostir – svar við kalli tímans?

Margrét S. Björnsdóttir skrifar
Meginrök okkar sem í áratugi unnum að sameiningu vinstri flokkanna voru, að fleira sameinaði þá en skildi að og sameinaðir hefðu þeir meiri áhrif. Lykiláfangi var stofnun Reykjavíkurlistans 1994 og fjöldi sameiginlegra framboða um allt land, sem áttu síðan drjúgan þátt í samruna fjögurra flokka í Samfylkinguna árið 2000.

Í dag starfar þessi hluti stjórnmálanna í fjórum flokkum, Bjartri framtíð, Pírötum, Samfylkingu og Vinstri grænum. Framsóknarflokkur hefur í bili a.m.k. dæmt sig úr leik með lýðskrumi og þjóðernisbelgingi, þó þar séu vissulega góðir liðsmenn félagshyggju eins og Eygló Harðardóttir.

Erum við samfylkingarsinnar þá aftur á byrjunarreit? Ekki nauðsynlega. Líta má svo á að þessir fjórir flokkar höfði einfaldlega til mismunandi, en mikilvægra hópa vinstra megin við miðju, eitthvað sem einn flokkur myndi ekki gera. Kjósendur í dag vilja aukin áhrif, geta valið mismunandi áherslur á mismunandi tímum. Það er andi okkar tíma, en ekki skilyrðislaus flokkshollusta. Þetta er því ekki nauðsynlega slæmt fyrirkomulag. Ekki síst vegna þess, að mikilvægt atriði hefur breyst frá fyrri tíð, fólk í þessum fjórum flokkum lítur ekki hvert á annað sem sinn helsta andstæðing eins og oft var áður, t.d. á milli Alþýðubandalags og Alþýðuflokks.

Nýr meirihluti í borgarstjórn Reykjavíkur sýnir þetta glöggt, sem og samstarf VG og Samfylkingar í síðustu ríkisstjórn, í dag á Alþingi og að því er virðist prýðissamstarf þeirra einnig við þingflokka Bjartrar framtíðar og Pírata.

Ég held því að við eigum að horfa á þessa flokka sem bræðra- og systurflokka, þar sem vilji kjósenda á hverjum tíma ræður hvaða áherslur vega þyngst: Vilja kjósendur meira eða minna af 1. Hefðbundinni jafnaðarstefnu, samstarfi við verkalýðshreyfingu og áherslu á ESB-aðild (Samfylking)? 2. Róttækni í kvenfrelsis- umhverfismálum (VG)? 3. Uppreisn gegn kerfum og valdboði og kröfu um gagnsæi (Píratar)? 4. Frjálslyndri umbótastefnu (Björt framtíð)? Allir þessir þættir eru til í hverjum flokkanna, en misríkjandi.

Er ekki lærdómur stjórnmálasögu 20. aldar og um leið áskorun forystu þessara fjögurra flokka að láta ekki andstæðinga, innri átök eða persónulegan metnað, sundra samstarfi og samstöðu umbótasinnaðs félagshyggjufólks. Fólks sem vill gæta almannahagsmuna og jöfnuðar, og ekki síst standa vörð um þá sem veikast standa.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×