Skoðun

Minnkum skaðann

Þórir Guðmundsson skrifar

Á hverju kvöldi nema laugardaga aka þrír sjálfboðaliðar Rauða krossins í Reykjavík um götur höfuðborgarsvæðisins og bjóða upp á lífsbjargandi heilbrigðisþjónustu. Í hverri ferð er að minnsta kosti einn sjálfboðaliðinn heilbrigðismenntaður – yfirleitt hjúkrunarfræðingur eða læknir.

Allir sem vilja fá aðhlynningu sára, umbúðaskipti, blóðþrýstingsmælingu og almenna heilsufarsráðgjöf. Með því næst til fólks sem veigrar sér við að leita til heilsugæslunnar eða á spítala.

Fólk sem sprautar vímuefnum í æð fær hreinar nálar og sprautur. Þetta kemur í veg fyrir smit. Það fær líka box undir óhreinar nálar, sem leiðir til þess að minna er um sprautubúnað á víðavangi.

Margir þeirra sem leita til okkar eru illa nærðir. Í bíl Rauða krossins – sem við köllum frú Ragnheiði til heiðurs Ragnheiði Guðmundsdóttur, fyrrverandi formanni Reykjavíkurdeildar – eru því orkustangir, safar og önnur næring.

Stuðningur Rauða krossins við jaðarsett fólk er veittur í anda skaðaminnkunar, sem er hugmyndafræði sem byggir á virðingu og fordómaleysi. Stöðugt fleiri sækja í þennan stuðning; heimsóknir þrefölduðust á síðasta ári miðað við árið á undan.

Fjölgun skjólstæðinga er ekki vegna þess að hópurinn hafi stækkað heldur vegna þess að traust þeirra til okkar hefur aukist. Grundvöllur trausts í garð okkar sjálfboðaliða er vilji þeirra til að hjálpa án þess um leið að dæma eða beita þrýstingi.

Á næstunni viljum við efla þetta verkefni. Áður en árið er liðið ætlum við að fjölga sjálfboðaliðum og veita þjónustuna sjö daga vikunnar.

Við ætlum að vinna með yfirvöldum til þess að geta skimað fyrir HIV og lifrarbólgu C, meðhöndlað sýkingar með því að veita sýklalyf, geta brugðist við bráðatilfellum og boðið konum upp á getnaðarvarnir.

Eins og svo margt í starfi Rauða krossins byggir starfið á þeirri sannfæringu að ná þurfi til þeirra sem af einhverjum ástæðum fá ekki eða geta ekki nýtt sér opinbera þjónustu. Við finnum fyrir miklum stuðningi við skaðaminnkunarstarf okkar hjá hinu opinbera, sérstaklega í heilbrigðisráðuneytinu. Það hvetur okkur áfram.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×