Skoðun

Mikilvægi ráðgjafar í eineltismálum

Hildur Jakobína Gísladóttir skrifar
Sá eða sú sem upplifir einelti á vinnustað er ekki ein/n þó svo að hann/hún kannski haldi það. Rannsóknir sýna okkur að einelti á vinnustöðum er staðreynd. Sá sem upplifir einelti er þolandi ofbeldis (þá ofbeldis sem oft er vel falið), en áhrif ofbeldis á einstaklinga eru vel þekkt.

Þolendur ofbeldis upplifa oft mikla skömm. Þeir skammast sín fyrir að hafa lent í þessum aðstæðum og gera sig ábyrga fyrir þeim. Þeir upplifa sektarkennd og kvíða. Mörgum finnst t.d. erfitt að mæta til vinnu á morgnana. Þeir sofa kannski illa og finna fyrir streitu, jafnvel þunglyndiseinkennum. Einnig geta verið til staðar líkamleg vandkvæði eins og höfuðverkir, magaverkir og hækkaður blóðþrýstingur.

Það er ljóst að ofangreind áhrif eineltis eru alvarleg og skerða mjög lífsgæði fólks. Að auki hefur einelti áhrif á einkalíf þolenda, svo sem samskipti þeirra við vini, fjölskyldu og maka.

Þolendur forðast að segja frá

En hvað skýrir þá tilhneigingu þolenda að tala ekki um ofbeldið, fela það og jafnvel sætta sig við það svo mánuðum skiptir (sem oft er raunin)? Jú, það er eðli ofbeldisaðstæðna. Margir búa t.d við heimilisofbeldi í mörg ár áður en nokkur verður þess var. Gerendur brjóta þolendur sína niður smátt og smátt og þolendurnir vilja ekki að aðrir viti af ofbeldinu.

Þolendur eineltis eru oft líka hræddir við að segja frá, t.d. vegna ótta við hvað gerandinn muni gera og/eða að enginn muni trúa þeim. Þá vilja margir vinnustaðir ekki vita af einelti og hunsa mál sem koma upp. Það er því ekkert skrítið að þolendur tali ekki um eineltið og er það í samræmi við erlendar rannsóknir sem sýna að oftar en ekki er þolendum refsað (t.d. sagt upp) og gerendum jafnvel umbunað (t.d. með stöðuhækkun).

Hvað er til ráða?

Mikilvægt er að sá eða sú sem upplifir einelti geti rætt málið við einhvern sem tekur hana/hann trúanlega/n, hvort sem sá aðili er innan vinnustaðarins eða utan hans. Það er ekki víst að vinnustaðurinn viðurkenni vandann og taki á málum með þeim hætti sem þolandinn býst við eða vill. Þess vegna er oft gott að ræða við þriðja aðila til að finna út hvað best sé að gera. Best er að ræða við sérfræðinga á þessu sviði eða einstaklinga sem þekkja til vandans. Einkum er mikilvægt að þolandinn fái staðfestingu á því að hann beri ekki ábyrgð á hegðun gerandans. Slík staðfesting auðveldar honum þau skref sem á eftir koma, þ.e. að bæta líðan sína og aðstæður.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×