Skoðun

Mikilvægasta kosningamálið

Vigfús Bjarni Albertsson skrifar

Kæri stjórnmálamaður/stjórnmálakona. Nú styttist í kosningar. Það eru krefjandi tímar fram undan hjá þér.

Mig langar að biðja þig verðandi leiðtogi að kynna þér sérstaklega heilbrigðismálin í landinu og þá ekki síst Þjóðarsjúkrahúsið og mikilvægi þess fyrir heill landsins. Ég er með nokkrar hugmyndir fyrir þig sem gæti verið gott veganesti út í kosningarnar sem vonandi verða í haust.

Ég held að það væri gott ráð fyrir þig að hitta sem flest heilbrigðisstarfsfólk og sjá og heyra í þeim beint hvernig vinnuaðstæður eru. Það væri mikilvægt fyrir þig að heyra hvernig vinnuálaginu er háttað, hvernig aðstæður eru. Gott væri að spyrja þetta starfsfólk hvernig því líður og hvað það telur að sé mikilvægast að gera til að varðveita mannauðinn í þessum störfum. Ég held að þú munir heyra að margt af þessu fólki er þreytt og undir allt of miklu álagi. Það er mikilvægt fyrir þig, kæri leiðtogi, að huga að þessu.

Annað mikilvægt atriði væri að þú talaðir beint við sjúklingahópa, það fólk sem þarf að nota heilbrigðiskerfið. Að þú spyrðir hvernig það er vera þiggjandi heilbrigðisþjónustunnar. Það væri mikilvægt fyrir þig að heyra hverjar áhyggjurnar eru þegar kemur að því að vera þiggjandi þjónustunnar. Þú gætir líka hitt aðstandendur og spurt hvernig það er að vera með fólki í þeim aðstæðum sem heilbrigðiskerfið býður upp á því með hverjum sjúkling eru margir einstaklingar sem teljast til fjölskyldu viðkomandi. Það er gott fyrir þig, verðandi leiðtogi, að heyra sögurnar beint. Þú veist jafnvel og ég að að baki öllum tölum og umræðum um peninga eru persónulegar sögur. Sögur sem geyma tilfinningar, lífsreynslu, von og ótta. Það batna allir við að heyra slíkar sögur. Ég veit að þú vilt vel með framboði þínu, og að þekkja til lífsreynslu fólks eykur samúð þína sem er ekki síðri viska en hagvísindi.

Það er ósk mín að þið, stjórnmálafólk þessa lands, gerið heilbrigðismálin að forgangsmáli og þá ekki síst Þjóðarsjúkrahúsið okkar. Gangi ykkur vel og varðveitið vel þá sýn að þið eruð í þjónustu við okkur almenning í því að búa til betra samfélag.

Þessi grein birtist upphaflega í Fréttablaðinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×